Ekki ánægður en lokun stofnana ólíkleg

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði blaðamönnum í dag að hann væri ekki ánægður með samkomulag sem náðst hefur á bandaríska þinginu um fjárveitingu til veggs á landamærum Bandaríkjanna, en bæði repúblikanar og demókratar á þinginu hafa fallist á að veita 1,4 milljörðum Bandaríkjadala í byggingu múrs, sem er ansi fjarri þeim 5,7 milljörðum dala sem Trump sjálfur hefur krafist.

„Ég get ekki sagt að ég sé ánægður, ég get ekki sagt að ég sé uppveðraður,“ sagði Trump, spurður um þetta mál fyrir ríkisstjórnarfund í Hvíta húsinu í dag. En forsetinn sagði einnig að hann gæti bætt fjármunum við til varna á suðurlandamærunum eftir öðrum leiðum og lagt þetta deilumál til hliðar.

„Veggurinn verður alla vega reistur,“ sagði Trump og gaf í skyn að hann myndi sættast á þessa málamiðlun og ekki fara aftur í hart við demókrata á þinginu, með þeim afleiðingum að loka þyrfti hluta alríkisstofnana á nýjan leik í vikulok, eins og óttast hefur verið.

Trump hefur þó ekki gefið sitt lokasvar til þingsins, en útlit er fyrir að þetta útspil dugi til og að forða megi annarri lokun alríkisstofnana, sem margar hverjar voru lokaðar í fimm vikur í desember og fram í janúar. Þær aðgerðir höfðu áhrif á 800.000 starfsmenn alríkisstofnana, samkvæmt frétt AFP um málið.

„Ég get ekki sagt að ég sé ánægður, ég get …
„Ég get ekki sagt að ég sé ánægður, ég get ekki sagt að ég sé uppveðraður,“ sagði Trump, spurður um þetta mál fyrir ríkisstjórnarfund í Hvíta húsinu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert