Kardínáli sviptur hempunni

Theodore McCarrick, fyrrverandi erkibiskup og kardínáli kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum ...
Theodore McCarrick, fyrrverandi erkibiskup og kardínáli kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum hefur verið sviptur hempunni vegna ásakana um kynferðisbrot gegn barni. AFP

Theodore McCarrick, fyrrverandi erkibiskup og kardínáli kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum hefur verið sviptur hempunni vegna ásakana um kynferðisbrot gegn barni. McCarrick er þar með æðsti embættismaður kaþólsku kirkjunnar sem vísað hefur verið úr starfi á okkar tímum.

BBC hefur eftir yfirmönnum kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum að ásakanir um að McCarrick hafi beitt táningsdreng kynferðislegu ofbeldi fyrir um fimmtíu árum síðan séu trúverðugar.

McCarrick er 88 ára og hafði þegar sagt af sér embætti. Hann kveðst ekkert muna eftir hinni meintu misnotkun.

„Enginn biskup og þá skiptir engu máli hversu valdamikill hann er, er ofar lögum kirkjunnar“ segir í yfirlýsingu frá  Daniel DiNardo biskup og formanni biskupasambands Bandaríkjanna. „Fyrir alla þá sem McCarrick misnotaði, þá bið ég að þessi úrskurðurinn verði lítið skref í átt að bata.“

BBC segir hina meintu misnotkun í mörgum tilfellum vera fyrnda og því ekki hægt að höfða dómsmál.

McCarrick var erkibiskup í Washington á árunum  2001-2006 og frá því hann sagði af sér á síðasta ári hefur hann lifað í einangrun í klaustri í Kansas.

McCarrick er fyrsti kardínálinn sem segir af sér frá því árið 1927. Hann er meðal hundruð annarra starfsmanna kaþólsku kirkjunnar sem ásakaðar hafa verið um kynferðisbrot gegn börnum og eru þeirra sögð ná yfir nokkurra áratuga skeið.

Að sögn BBC stendur Vatíkanið á næstunni fyrir ráðstefnu um  hvernig koma megi í veg fyrir kynferðisbrot geg börnum.

mbl.is