Faldi líkið í frystikistunni

Líkið fannst í bænum Mala Subotica í norðurhluta Króatíu.
Líkið fannst í bænum Mala Subotica í norðurhluta Króatíu. Ljósmynd/Wikipedia

Króatísk kona hefur verið handtekin og er hún grunuð um að hafa myrt systur sína fyrir 18 árum, eftir að lík fannst í frystikistu heima hjá henni, að því er AFP-fréttaveitan hefur eftir  saksóknara.

Jasmina Dominic var 23 ára námsmaður í Zagreb þegar hún hvarf árið 2000. 

Það var svo eftir húsleit á heimili systur hennar, sem býr í bænum Mala Subotica í norðurhluta Króatíu sem lík fannst og grunar lögreglu að þar séu fundnar líkamsleifar Jasminu. Var 45 ára kona handtekin í gær í tengslum við rannsókn málsins.

„Við teljum að líkið sem fannst í frystikistunni sé af konu sem fæddist árið 1977. Tilkynnt var um hvarf hennar 16. ágúst 2005,“ sagði Nenad Risak, talsmaður lögreglunnar, við AFP.

Króatískir fjölmiðlar segja að þrátt fyrir að Dominic hafi horfið árið 2000 hafi fjölskylda hennar ekki greint lögreglu frá því fyrr en fimm árum síðar.

Talið er að konan sem fannst látin í frystikistunni hafi verið myrt, en lögregla bíður niðurstöðu krufningar áður en það fæst staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert