Trump vill breyta klukkunni

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í dag að það …
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í dag að það væri í góðu lagi sín vegna að fyrirkomulagi klukkunnar í Bandaríkjunum verði breytt þannig að sumartími verði varanlegur. AFP

Þeir Bandaríkjamenn sem vilja breyta fyrirkomulagi klukkunnar hafa fengið nýjan bandamann, en sá er enginn annar en Donald Trump Bandaríkjaforseti.

Trump hefur þannig lýst sig hlynntan því að hætt verði að notast við annars vegar sumartíma og hins vegar vetrartíma. Þannig verði hætt að breyta klukkunni að vori og hausti fram og aftur um klukkustund. Þess í stað verði alltaf miðað við sumartíma.

Þannig sagði Trump á Twitter-síðu sinni í dag að það væri í góðu lagi hans vegna að klukkunni yrði breytt þannig að sumartími yrði varanlegt fyrirkomulag.

Fram kemur í frétt AFP að stuðningsmenn þess að breyta klukkunni með þessum hætt telji núverandi fyrirkomulag ónauðsynlegt og hugsanlega hættulegt.

Þá segir að vaxandi stuðningur sé við það að breyta klukkunni þannig að sumartími verði varanlegur á ríkisþingum í Bandaríkjunum. Lokaorðið í þeim efnum sé þó hjá bandaríska þinginu.

mbl.is