Aðgerðir eða algjört hrun blasir við

Gríðarleg sóun á sér stað í heiminum í dag. Hér ...
Gríðarleg sóun á sér stað í heiminum í dag. Hér má sjá ísbirni róta í sorpi við þorp í norðurhluta Rússlands. AFP

Um helmingur allrar losunar á gróðurhúsalofttegundum í heiminum kemur frá framleiðslu og vinnslu á hráefnum, allt frá eldsneyti til matvæla. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem lögð kynnt var í aðdraganda umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna í Kenía sem fram fer í vikunni. Þar eru fjölmargir vísindamenn og aðrir sem láta sig loftslagsmál varða saman komnir til að reyna að finna leiðir til að draga úr gengdarlausri neyslu margra jarðarbúa.

Í skýrslunni eru stjórnvöldum og fyrirtækjum gefnir skýrir afarkostir: Annað hvort að gjörbylta hagkerfum heimsins til að fá meira fyrir minna úr náttúruauðlindunum eða hætta á algjört hrun í öllum innviðum.

Vísindamennirnir benda á að þótt mörg ríki hafi gengist við Parísarsamkomulaginu um að minnka losun til að draga úr verstu áhrifum loftslagsbreytinga þá sé lítil von til þess að ná því markmiði án „brýnna og kerfisbundinna breytinga“ á því hvernig við notum náttúruauðlindir jarðar.

Sænska stúlkan Greta Thunberg er orðin táknmynd baráttunnar gegn loftslagsbreytingum ...
Sænska stúlkan Greta Thunberg er orðin táknmynd baráttunnar gegn loftslagsbreytingum sem börn og ungmenni víða um heim taka nú þátt í. AFP

Samkvæmt skýrslunni Global Resources Outlook 2019 hefur neysla á vatni, jarðefnum, jarðefnaeldsneyti og fleiru þrefaldast frá árinu 1970.

Og nú þegar hagkerfi fjölmennra þjóða á borð við Indverja og Kínverja vex mjög hratt kalla höfundar skýrslunnar eftir róttækri endurskoðun á því hvað mun fóðra þann vöxt.

„Enginn er að halda því fram að lönd sem eru á lægra stigi þróunar hafi ekki rétt til að þróast,“ segir Janez Potocnik, einn höfunda skýrslunnar. „En spurningin er, er mögulegt að fara öðruvísi að en við höfum gert hingað til? Með minni afleiðingum en við sjáum í dag?“

Í skýrslunni er dregin upp svört mynd af hinni endalausu kröfu um aukna nýtingu náttúruauðlinda samhliða því að mannkyninu fjölgar og nálgast átta milljarða manna.

Bent er á að noktun jarðefnaeldsneytis hafi aukist úr 6 milljörðum tonna árið 1070 til 15 milljarða tonna árið 2017, þrátt fyrir að reynt hafi verið í áratugi að auka áherslu á vistvænni orkugjafa.  

„Misnotkun á náttúruauðlindum hefur mikil áhrif á lífsgæði okkar og umhverfið,“ segir Bruno Orbele, fyrrverandi umhverfisráðherra Sviss og einn af höfundum skýrslunnar.

Ríkari þjóðir nota margfalt á við þær fátækari

En notkunin er ekki jöfn á öllum svæðum. Í takti við flesta þætti sem hefðbundið er að nota til að mæla hagvöxt komust skýrsluhöfundar að því að neysla hráefna á hvern íbúa ríkra þjóða er yfir helmingi meiri en meðaltal á heimsvísu. Íbúar ríkra þjóða nota 27,1 tonn af hráefnum á mann á ári samanborið við aðeins tvö tonn á hvern íbúa fátækari landa.

Mælst er til þess að stjórnvöld dragi úr aukningu á nýtingu náttúruauðlinda. Verði haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist mun losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið halda áfram að aukast og um allt að 43% til ársins 2060.

Ef halda á áfram að brjóta land til ræktunar með sama hraða og nú er gert mun ræktarland verða 20% umfangsmeira um miðja öldina en nú. Skógareyðing myndi halda áfram og um 10% skóglendis verða rudd. Allt þetta mun svo leiða til þess að náttúrulegir þættir sem binda gróðurhúsalofttegundir verða enn frekar úr lagi en nú er og þá er baráttan við að halda aftur af hlýnun jarðar töpuð.

„Hvernig við nálgumst þetta í dag er einfaldlega ekki nóg,“ segir Potocnik. Hann segir tíma óljósra loforða stjórnmálamanna um hvernig tekið verði á málinu liðinn. „Ef þú ert kjörinn fulltrúi, þá skaltu verja hagsmuni almennings. Og það er alveg ljóst hver er almannahagur í dag: Við verðum að lifa af.“

mbl.is

Bloggað um fréttina