Starfsmaður á kassa í IKEA stal 30 milljónum

IKEA-verslunin í Leangen í Þrándheimi.
IKEA-verslunin í Leangen í Þrándheimi. Ljósmynd/Tegn_3

Námsmaður á þrítugsaldri, sem starfað hafði í sex ár í hlutastarfi hjá sænska húsgagnarisanum IKEA í Leangen í norsku borginni Þrándheimi, hlaut nú fyrir helgina tveggja ára dóm í Héraðsdómi Suður-Þrændalaga fyrir stórþjófnað frá vinnuveitanda sínum en samkvæmt ákæru hafði maðurinn komist yfir 2.240.000 norskar krónur, jafnvirði 30,9 milljóna íslenskra króna, á tímabilinu frá janúar 2016 til október 2017.

Aðferðafræði þess fingralanga fólst í því að búa til fjölda tilhæfulausra inneignarnóta og ýmist greiða andvirði þeirra beint inn á eigin bankareikning, stinga því í eigin vasa í formi reiðufjár eða taka við millifærslum af reikningum fjögurra vina sinna sem þóttust skila vörum til verslunarinnar gegn fjölda inneignarnóta en skiluðu í raun engu. Að því komst þó enginn þar sem vinur þeirra, hinn dæmdi í málinu, starfaði í skiptadeildinni og gaf út allar nóturnar.

Rolex-úr, Apple-tæki og jakkaföt

Auk þess að þurfa nú að afplána dóm var manninum gert að endurgreiða fyrrverandi vinnuveitanda sínum 2,2 milljónir norskra króna, nánast alla svindlupphæðina, og sæta upptöku varnings sem sannarlega er ekki á færi allra námsmanna að sanka að sér, en þar telur dómurinn upp þrjú Rolex-úr, ógrynni Apple-snjalltækja, seðlaveski, heimilistæki, húsgögn og fjall af dýrum merkjafatnaði, jökkum, buxum og skyrtum.

„Þetta er fyrst og fremst áfall og hefur áhrif á okkur öll,“ segir Randi Schjetne, verslunarstjóri IKEA-verslunarinnar í Leangen, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í gær. „Svona lagað er ekki eitthvað sem okkur langar að upplifa á vinnustaðnum,“ segir hún enn fremur.

Hún ræddi einnig við NRK í janúar þegar fréttir voru fluttar af því að ákæra hefði verið gefin út á hendur starfsmanninum og sagði þá frá því að stjórnendur verslunarinnar hefði ekki grunað neitt fyrr en bankinn hafði samband og greindi þeim frá óeðlilegum fjölda millifærslna frá reikningi verslunarinnar inn á sama einkareikninginn. Þar með hefði komist upp um athæfi starfsmannsins og verslunin umsvifalaust kært málið til lögreglu.

Torfinn Svanem, verjandi námsmannsins glysgjarna, sagði í samtali við NRK í gær að skjólstæðingur hans tæki sér nú umhugsunarfrest til að meta hvort hann hygðist áfrýja dómi héraðsdóms.

Dagbladet

VG

E24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert