Búið að handtaka árásarmanninn

Lögregla greindi frá því á fundi með fréttamönnum nú síðdegis ...
Lögregla greindi frá því á fundi með fréttamönnum nú síðdegis að búið væri að handtaka Gökmen Tanis, sem grunaður er um árásina. AFP

Hollenska lögreglan hefur nú handtekið manninn sem talinn er hafa orðið þremur að bana í Utrecht í morgun. Fréttastofa Sky-sjónvarpsstöðvarinnar hefur eftir saksóknaranum, Rutger Jeuken, að búið sé að handtaka Gök­men Tan­is, 37 ára gamlan Tyrkja sem grunaður er um árásina.

„Við vorum að fá þær fréttir að búið sé að handtaka hinn grunaða,“ sagði Rob van Bree, lögreglustjóri Utrecht, á fundi með fréttamönnum. 

Það var klukkan tíu í morgun að staðartíma, sem árás­armaður­inn hóf skot­hríð á farþega í spor­vagni við 24. októ­ber-torgið í borg­inni. Auk þeirra þriggja sem létust eru fimm særðir, þar af þrír lífs­hættu­lega, og greindi borgarstjóri Utrecht frá því í dag að máli sé rann­sakað sem hryðju­verk.  

Lög­regl­an birti í dag mynd af Tan­is, sem flúði af vett­vangi á stoln­um bíl, rauðum Renault Clio. Var í kjölfarið óskað eft­ir vitn­um að ferðum Tan­is og nú síðdegis fannst bíll­inn í nær­liggj­andi götu.

Ekki hefur verið gefið upp hvar Tanis var handtekinn, en mikill viðbúnaður var í Utrecht í kjölfar árásarinnar og var skólum m.a. lokað. Viðbúnaðarstig í borginni hefur nú verið lækkað úr fimm í þrjá.

BBC hafði eftir tyrkneskum kaupsýslumanni að Tanis hafi á árum áður tekið þátt í átökum í Tétsníu, en hópar vígamanna með tengsl við vígasamtökin Ríki íslams hafa lengi starfað í Tétsníu.

„Hann var handtekinn vegna tengsla sinna við Ríki íslams, en var svo síðar látinn laus,“ sagði kaupsýslumaðurinn við BBC.

Tyrkneska DHA-fréttaveitan hefur eftir föður Tanis, Mehmet Tanis, að sé sonur hans sekur beri að refsa honum. „Ef hann gerði þetta verður að refsa honum,“ sagði hann 

Kvaðst hann hafa misst tengsl við son sinn eftir að hann skildi við konu sína og sneri aftur til Tyrklands. Gökmen Tanis dvaldi hins vegar áfram í Hollandi með móður sinni.

„Ég hef ekki talað við son minn eða átt samskipti við hann í 11 ár. Við höfum ekki ræðst við síðan 2008,“ sagði hann.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Málun bílastæða
Vertíðin hafin leitið tilboða: S: 551 4000 - verktak@verktak.is eða á http...
Lítið sumarhús
Til leigu lítið sumarhús 25km. frá Akureyri, svefnpláss fyrir 2-4, WiFi- ljóslei...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...
Giftingar- og trúlofunarhringar frá ERNU
Mikið úrval. Á mynd er silfurpar með alexandrite-steini sem gefur mikið litaflóð...