Áttaviti eða dauði

Þrír Afríkubúar sem voru dæmdir í þriggja ára og átta mánaða fangelsi fyrir smygl á fólki frá Líbýu til Evrópu segja að þeir sem standi á bak við smyglið náist aldrei. Þeir séu í öruggu skjóli í Líbýu á meðan flóttamenn eins og þeir séu látnir stýra flóttabátunum með áttavita að vopni. Annars bíði þeirra dauðinn.

Cherno Jallow, sem er 22 ára gamall Gambíubúi, Cheikhaya Dieng, sem er 26 ára og frá Senegal, og Fofana Lamine, sem er 25 ára gamall og frá Fílabeinsströndinni, voru dæmdir árið 2016 en fá reynslulausn vegna góðrar hegðunar í fangelsi og ræddu við fréttamann AFP í fangelsinu í Trapani á Sikiley.

Fofana Lamine, 25 ára, Cherno Jallow, 22 ára og Cheikhaya …
Fofana Lamine, 25 ára, Cherno Jallow, 22 ára og Cheikhaya Dieng, 26 ára. AFP

Þeir segjast allir hafa verið neyddir til þess að stýra flóttabátum yfir Miðjarðarhafið af smyglurum sem þeir höfðu keypt far með yfir hafið.

Mennirnir þrír yfirgáfu allir heimalandið árið 2015 og komu til Líbýu í atvinnuleit. Fljótlega eftir komuna þangað var Jallow rænt og fjölskylda hans neydd til þess að greiða lausnarfé fyrir hann. Dieng og Lamine óttuðust mjög um öryggi sitt í Líbýu vegna glundroðans þar og höfðu því samband við smyglara í þeirri von að geta komist á bát yfir til Ítalíu. 

„Á brottfarardaginn létu þeir mig fá áttavita og sögðu mér að einhver myndi stýra bátnum en að ég ætti að halda á áttavitanum,“ segir Lamine. „Ég sagði þeim að ég hefði enga reynslu til þess en þeir voru vopnaðir!“ segir Lamine sem aldrei tók við áttavitanum og bætir við að hann hafi ekki einu sinni talað sama tungumál því hinn var frá Gambíu en hann sjálfur frá Fílabeinsströndinni. Dieng var um borð í öðrum bát. 

„Þegar hann áttaði sig á að ég var sjómaður árum saman þá lét hann mig strax fá peningana mína aftur og lét mig taka við stýrinu,“ segir Lamine. „Ég gerði það til þess að bjarga lífi mínu því ef ég hefði neitað þá hefðu þeir drepið mig.“

Fangelsið í Trapani sem er sunnarlega á Sikiley.
Fangelsið í Trapani sem er sunnarlega á Sikiley. AFP

Jallow hafði verið í kennaranámi og það var nóg til þess að smyglararnir töldu að hann gæti séð um áttavita.

„Þú hefur lært og því hlýtur þú að kunna á áttavita,“ hefur Jallow eftir smyglaranum. „Ef þú notar ekki áttavitann þá munum við drepa þig þar sem þú hefur eyðilagt viðskiptin fyrir okkur,“ segir Jallow við fréttamann AFP.

Hann segir að þeir hafi beint byssu að höfði hans og síðan hafi smyglarinn, sem er arabi, siglt bátnum út á haf og hent áttavitanum í hann. „Átti ekki annarra úrkosta völ,“ segir Jallow. 

Mennirnir þrír og öðrum samferðarmönnum þeirra var bjargað og þeir færðir til Sikileyjar af ítölsku strandgæslunni í janúar 2016. Þar spurði lögregla flóttafólkið hverjir hefðu stýrt og leiðbeint flóttabátunum og í kjölfarið voru þremenningarnir fangelsaðir. 

Þeir verða, eins og áður sagði, látnir lausir fljótlega á grundvelli góðrar hegðunar en enginn þeirra fær hæli á Ítalíu. 

„Þeir sem bera raunverulega ábyrgð eru ekki hér,“ segir Dieng. Hann bætir við að það séu Afríkubúar líkt og þeir sem annist sjóferðina á meðan Líbýumenn sem eru smyglarar haldi sig heima og græði á tá og fingri.

Þremenningarnir verða væntanlega sendir úr landi þegar afplánun lýkur.
Þremenningarnir verða væntanlega sendir úr landi þegar afplánun lýkur. AFP
Fangavörður í San Giuliano-fangelsinu í Trapani.
Fangavörður í San Giuliano-fangelsinu í Trapani. AFP
Cherno Jallow.
Cherno Jallow. AFP
Fofana Lamine.
Fofana Lamine. AFP
Cheikhaya Dieng.
Cheikhaya Dieng. AFP
mbl.is