Tilbúið fyrir Brexit án samnings

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Evrópusambandið hefur lokið undirbúningi sínum fyrir mögulega útgöngu Bretlands úr sambandinu án þess að samþykktur útgöngusamningur liggi fyrir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórn ESB sendi frá sér í dag.

Fyrirhugað er að útganga Bretlands úr ESB (Brexit) verði á föstudaginn en Theresa May, forsætisráðherra landsins, hefur óskað eftir því að fresta henni. ESB hefur samþykkt frestun til 12. apríl liggi útgöngusamningur ekki fyrir en 22. maí verði útgöngusamningur May samþykktur af breska þinginu í þriðju tilraun komi til hennar.

Ekki er ljóst hvort May mun leggja útgöngusamninginn fyrir breska þingið í þriðja sinn en honum var hafnað með afgerandi hætti í fyrri tilraunum til þess að fá hann samþykktan. Komi til þess er talið að henni verði vart sætt áfram í embætti.

Fram kemur í tilkynningu ESB að þar sem vaxandi líkur séu á því að Bretland yfirgefi sambandið án útgöngusamnings 12. apríl hafi framkvæmdastjórnin lokið undirbúningi sínum fyrir þann möguleika í dag að því er segir í frétt AFP.

Englandsbanki greindi frá því á dögunum að um 80% breskra fyrirtækja væri reiðubúið fyrir útgöngu úr ESB án samnings. Fjallað var meðal annars um það á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert