Í vetrardvala í ísskáp

Hann er heldur óhefðbundinn, staðurinn sem varð fyrir valinu hjá hópi leðurblaka til að leggjast í vetrardvala þennan veturinn. Valið var þó ekki í þeirra höndum heldur góðhjartaðra borgarbúa í Minsk sem komu leðurblökunum í hendur hjálparsamtaka síðasta haust þegar leðurblökurnar fundust á vergangi í leit sinni að álitlegum stað til að leggjast í dvala. 

Kozhanopolis-dýraathvarfið hjálpar leðurblökum sem tekst ekki að finna sér stað til að leggjast í híði með því að vefja þær inn í sérstakan klút og hengja þær upp í ísskáp þar sem þær eyða vetrinum. 

Leðurblökur í vetrardvala í dýraathvarfi í Minsk í Hvíta-Rússlandi þar …
Leðurblökur í vetrardvala í dýraathvarfi í Minsk í Hvíta-Rússlandi þar sem vandlega er hugsað um þær. AFP

„Á veturna leggjast leðurblökur í djúpan svefn, vetrardvala, og til þess þurfa þær frekar kalt og rakt umhverfi,“ segir Alexei Shpak, yfirmaður dýraathvarfsins. 

Leðurblökurnar sem enda í athvarfinu fljúga ýmist á svalir fólks, inn í íbúðir eða stigaganga og jafnvel loftræstikerfi. Þá hefur fólk einnig komið með leðurblökur sem það hefur fundið liggjandi á jörðunni í snjónum. 

Í ísskápnum í athvarfinu búa leðurblökurnar 32 við kjöraðstæður, í rúmgóðum ísskáp í núll til fimm gráðu hita og 50 prósent raka. Fyrstu leðurblökurnar lögðust í dvala í desember, aðrar komu aðeins seinna, en nú er farið að vora og leðurblökurnar farnar á stjá. 

„Þær eru svo ljótar, í rauninni, en þegar þú heldur á þeim þá er gott að koma við þær, þær eru svo litlar og loðnar. Þá rennur upp fyrir þér hversu mikið kraftaverk þetta er í raun og veru,“ segir Anna, sem kom ásamt dóttur sinni til að sjá vorboðana ljúfu sem leðurblökurnar í Minsk eru. 

Hitinn í borginni er í kringum tíu gráður þessa dagana og við það vakna leðurblökurnar til lífsins og virtust þær frelsinu fegnar, líkt og sjá má á myndskeiðinu hér að ofan. 

Þegar leðurblökurnar vakna úr dvalanum eru þær vigtaðar og ástand …
Þegar leðurblökurnar vakna úr dvalanum eru þær vigtaðar og ástand þeirra kannað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert