Hertha í Berlín er ísbjarnarhúnn

Hertha þótti sýna lipra takta með fótboltann í dag.
Hertha þótti sýna lipra takta með fótboltann í dag. AFP

Nýjasta aðdráttarafl Tierpark-dýragarðsins í Berlín er ísbjarnarhúnn og í dag var tilkynnt að hún myndi fá nafnið Hertha – í höfuðið á knattspyrnuliðinu Herthu Berlín, sem leikur í Bundesligunni.

Hertha fæddist á fyrsta degi desembermánaðar í Tierpark-dýragarðinum, en hún er afkomandi Knúts, sem var eitt aðalaðdráttarafl Berlínar-dýragarðsins, þar til Knútur drapst skyndilega árið 2011.

Nafngift ísbjarnarhúnsins hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, en eftir að Herthu-nafnið var opinberað birti knattspyrnufélagið fljótt plaköt, þar sem var áletrað: „Í Berlín getur þú verið allt. Jafnvel ísbjarnarhúnn sem heitir Hertha.“

Hertha Berlín er með lukkudýr sem er einnig björn, þó skógarbjörn, og heitir það Herthinho. Í morgun birti félagið myndband á Twitter-síðu sinni þar sem Herthinho ferðast frá Ólympíuleikvanginum og færir Herthu litlu gjöf í dýragarðinum.

Fram kemur í frétt AFP um nafngiftina að það kosti um það bil 1.000 evrur að gerast stuðningsaðili stórs dýragarðsdýrs í eitt ár og má gera ráð fyrir því að Hertha Berlín hafi greitt að minnsta kosti þá upphæð til þess að tryggja sér nafngift dýrsins.

Hertha, þá ónefnd, kom fyrst fyrir sjónir almennings í síðasta mánuði með móður sinni Tonju, en þá þótti óhætt að sýna húninn, enda var hún þá búin að lifa af fyrstu þrjá mánuðina og orðin nokkuð stálpuð.

Það þykir góður áfangi enda er algengt að ísbjarnarhúnar drepist á fyrstu vikum lífs síns. Tonja, móðir Herthu, hafði áður misst þrjá unga húna á einungis tveimur árum.

Hertha rúllar sér um búrið í Berlín í dag.
Hertha rúllar sér um búrið í Berlín í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert