159 dagar frá hvarfi Anne-Elisabeth

Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í …
Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í fyrra. Ekkert hefur spurst til hennar síðan. AFP

159 dagar eru liðnir frá því Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust af heimili sínu í Fjellhamar í Lørenskógi. Ekkert er vitað hvort hún er lífs eða liðin en óprúttnir aðilar hafa reynt að svíkja fé út úr eiginmanni hennar.

Það síðasta sem heyrðist frá Anne-Elisabeth Hagen var símtal til eins úr fjölskyldunni klukkan 09:14 þann 31. október. Eiginmaður hennar, Tom Hagen, fór í vinnuna um klukkan 9 og kom til baka um 13:30. Hálftíma síðar hafði hann samband við lögreglu en þá hafði hann fundið bréf frá mannræningjunum þar sem þeir kröfðust þess að fá 9 milljónir evra í lausnarfé. Greiðslan átti að vera í rafmynt. Síðan þá hafa mannræningjarnir aðeins sent þrenn rafræn skilaboð.

Hagen-hjónin eru vel stæð og að sögn lögreglu hefur verið reynt að svíkja fé út úr Hagen-fjölskyldunni. Slíkt er refsivert og eru nokkur slík mál í rannsókn lögreglu og mögulega verða einhverjir ákærðir. Tommy Brøske, yfirlögregluþjónn í Noregi, staðfestir þetta við norska Dagbladet og að hluti af fjárkúgunum hafi komið erlendis frá. 

Heimili hjónanna Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik Hagen.
Heimili hjónanna Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik Hagen. AFP

Einkaspæjarinn Finn Abrahamsen og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaðurinn Jørn Lier Horst höfðu báðir sagt blaðamönnum Dagbladet að líklegt væri að aðrir glæpamenn myndu reyna að nýta sér aðstæður Hagen-fjölskyldunnar og reyna að kúga út úr henni fé.

Dagbladet veit til þess að lögreglan hefur haft samband við einhverja sem það hafa reynt en lögreglan vill ekki veita frekari upplýsingar þar um. Aðeins að slík mál hafi komið upp. 

Brøske segir að enn sé unnið að rannsókninni af fullum þunga og markmiðið enn það sama: Að finna Anne-Elisabeth Hagen á lífi. Mun færri ábendingar berast nú en áður en alls hafa borist um 1.600 ábendingar. Eins er verið að fara yfir rúmlega sex þúsund tíma af myndefni sem tengist mögulega hvarfi Anne-Elisabeth 31. október í fyrra.

Greinin í norska Dagbladet í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert