„Hjarta Parísar“ brennur

Slökkviliðsmenn berjast við eldinn.
Slökkviliðsmenn berjast við eldinn. AFP

„Þetta er alveg hræðilega sorglegt. Þetta er hjarta Parísar sem brennur. Maður horfir á söguna fara. Þetta er aðaltákn Frakka. Ég myndi segja að kirkjan væri það frekar en Eiffelturninn því hún er frá miðöldum,“ segir Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður, um brunann í Notre Dame-dómkirkjunni sem enn logar. 

Laufey bendir á að dómkirkjan sé vagga gotneska byggingarstílsins en kirkjan var byggð á árunum 1163-1330. Hún geymi ríkulega sögu Frakklands sem spannar fleiri aldir og menningarleg verðmæti eftir því. Ómetanlegir listmunir eru í kirkjunni t.d. eins og rósagluggarnir. Hún bendir á að þar sem framkvæmdir hafa staðið yfir voru ýmsir helgir munir fjarlægðir tímabundið eins og þyrnikóróna Krists.  

„Ég er með kökk í hálsinum“

„Þetta er þyngra en tárum taki að horfa upp á þetta. Ég er með kökk í hálsinum,“ segir Laufey. Hún hefur setið negld við sjónvarpið í kvöld að fylgjast með beinni útsendingu frá eldsvoðanum. Hún segir ljóst að burðargrind þaksins hafi brunnið og líklega nái turnarnir tveir sem geyma kirkjuklukkurnar að standa. Hún vonar að eldurinn hafi ekki náð að læsa sér í steinana og bogana því þá hrynur kirkjan.

Laufey hefur búið í París í 40 ár. Hún hefur farið í ótal ferðir með Íslendinga í kirkjuna í áraraðir. „Ég hef horft á hana og dásamað í mörg ár. Tengingin við hana er sterk.“ 

Notre Dame-dómkirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.  

Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður, hefur búið í París í ...
Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður, hefur búið í París í 40 ár. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Notre Dame-dómkirkjan í París.
Notre Dame-dómkirkjan í París. mbl.is/Guðni Einarsson
mbl.is