„Byrjið á að borga skattana ykkar“

Auðugustu menn Frakklands voru heldur betur ekki lengi að bregðast …
Auðugustu menn Frakklands voru heldur betur ekki lengi að bregðast við þegar að kirkjan sögufræga brann frammi fyrir augum heimsbyggðarinnar á mánudag. AFP

Rausnarleg framlög franskra auðmanna til endurbyggingar Notre Dame-dómkirkjunnar í París hafa vakið mikla athygli, en sú athygli hefur ekki einungis verið jákvæð. Í fréttaskýringu New York Times kemur fram að verkalýðsleiðtogar og stjórnmálamenn hafi gagnrýnt framlögin, sem sögð eru sýna hversu mikil misskiptingin er í landinu.

Auðugustu menn Frakklands voru heldur betur ekki lengi að bregðast við þegar að kirkjan sögufræga brann frammi fyrir augum heimsbyggðarinnar á mánudag. Francois-Henri Pinault, næst ríkasti maður Frakklands, hét því að leggja 100 milljónir evra til endurbyggingarstarfsins í þann mund sem slökkviliðsmenn voru að slökkva í síðustu glóðunum á þriðjudagsmorgun.

Bernard Arnault, sem er allra Frakka ríkastur, lét síðan ekki sitt eftir liggja og skutlaði 200 milljón evrum í sjóðinn, einungis nokkrum klukkustundum síðar, en þeir Pinault og Arnault hafa átt í hatrömmum deilum til margra ára.

Umdeild hugmynd kveikti ofsa

Og fleiri hafa lagt sitt að mörkum. Samkvæmt frétt New York Times höfðu yfir 850 milljónir evra safnast þegar í gær, frá frönskum fjölskyldum og stórfyrirtækjum innlendum sem erlendum. En sem áður segir, eru ekki allir sáttir með þessi framlög.

Francois-Henri Pinault (t.v.) og Bernard Arnault (t.h).
Francois-Henri Pinault (t.v.) og Bernard Arnault (t.h). AFP

Sérstaklega ekki eftir að Jean-Jacques Aillagon, fyrrverandi menningarmálaráðherra landsins og núverandi ráðgjafi Francois Pinault eldri, föður Francois Henri Pinault, lagði til að fjárframlög til endurbyggingarinnar yrðu gerð frádráttarbær frá skatti upp að 90%, í stað 60% eins og almennt er með góðgerðaframlög í Frakklandi.

Orð hans vöktu mikla reiði og viðbrögðin voru svo sterk að Aillagon dró orð sín til baka í útvarpsviðtali í gærmorgun og Pinault fjölskyldan gaf út yfirlýsingu um að hún myndi ekki sækjast eftir skattafrádrætti á móti framlagi sínu.

„Sýnir berlega ójöfnuðinn í þessu landi“ 

„Getur þú ímyndað þér, 100 milljónir, 200 milljónir með einum músarsmelli,“ sagði Philippe Martinez, formaður verkalýðsfélagsins CGT. „Þetta sýnir berlega ójöfnuðinn í þessu landi,“ sagði verkalýðsleiðtoginn og bætti því að fyrst auðjöfrarnir ættu tugi milljóna evra til þess að endurbyggja Notre Dame ættu þeir að hætta að segja fólki að peningar væru ekki til til þess að mæta félagslegum ójöfnuði.

Manon Aubry, sem er hátt sett í France Isoumise, róttækum vinstriflokki, sagði framlögin „æfingu í almannatengslum.“ Hún sagði að listinn yfir þá sem hefðu gefið til endurbyggingarinnar liti út eins og listi yfir fyrirtæki og einstaklinga sem væru staðsett í skattaskjólum.

„Ég vil segja þeim: Byrjið á að borga skattana ykkar,“ sagði Aubry og bætti við að þá væri hægt að auka fjárveitingar ríkisins til menningarmála.

Æsir Gulvestunga enn frekar

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur staðið í ströngu við að reyna að friðþægja Gulvestunga, sem hófu hörð mótmæli gegn hækkunum eldsneytisskatta síðasta haust, sem hafa síðan þróast yfir í almenn mótmæli gegn versnandi lífsskilyrðum meðaltekjufólks í Frakklandi, sem telja sig bera þunga skattbyrði miðað við efri-millistétt og þá ríku.

Frá götumótmælum Gulvestunga í Toulouse 13. apríl sl.
Frá götumótmælum Gulvestunga í Toulouse 13. apríl sl. AFP

Vegið hefur verið að Macron fyrir að afnema sérstakan auðlegðarskatt, en það gerði ríkisstjórn hans til þess að reyna að örva efnahag ríkisins.

Fyrir Macron eru framlögin til endurbyggingar Notre Dame og umræða um aukna skattaafslætti til handa milljarðamæringum þeirra vegna því orðin enn eitt málið, sem kveikt hefur bál í hjörtum þeirra, sem telja misskiptinguna mikla og ósanngjarna.

Fréttaskýring New York Times í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina