Enginn skjátími fyrir yngri en 2 ára

Ekki er mælst til þess að ung börn séu mikið …
Ekki er mælst til þess að ung börn séu mikið fyrir framan tölvuskjá. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Börn yngri en tveggja ára eiga ekki að sitja og horfa á skjá, hvort sem það er á sjónvarp, tölvu eða síma. Börn á aldrinum tveggja til fjögurra ára mega í mesta lagi gera slíkt í klukkutíma eða skemur sem er enn betra. Þetta kemur fram í ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. BBC greinir frá. 

Þrátt fyrir þessar ráðleggingar hyggjast yfirvöld í Bretlandi ekki breyta sínum ráðleggingum um skjátíma barna en þar eru engar ráðleggingar um æskilegan skjátíma barna. Einungis er kveðið á um að börn eigi að forðast að horfa á skjá fyrir svefn. 

Sitt sýnist hverjum um þessar ráðleggingar og bendir meðal annars Breska háskólastofnunin í barnalækningum og barnaheilsu (Royal College of Paediatrics and Child Health) á að litlar sannanir séu fyrir skaðlegum áhrifum skjánotkunar á börn.   

Auk ráðlegginganna um skjátíma barna er mælst til þess að börn skuli ekki vera lengur en klukkutíma í einu spennt í bílstól, í barnavagn eða í burðarpoka. 

Þetta er í fyrsta skipti sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefur út ráðleggingar sem varða skjátíma barna, æskilega hreyfingu, tíma í kyrrsetu og svefn barna yngri en fimm ára. Ráðleggingarnar verða kynntar formlega á ráðstefnu Evrópuþings um offitu í Glasgow í Skotlandi á sunnudaginn næsta.  

Þess má geta að samkvæmt skjáviðmiðum embættis landlæknis hér á landi fyrir börn frá 0 til 18 mánaða er mælst til þess að þau eigi að forðist allan skjátíma. Fyrir 18 mánaða til 5 ára segir að „takmarka skal skjátíma, sérstakleg hjá yngstu börnunum“. Sjá nánar hér. 

Enginn skjátími á að vera í boði fyrir börn yngri …
Enginn skjátími á að vera í boði fyrir börn yngri en tveggja ára, að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. mbl.is/Golli
mbl.is