Hóta að sniðganga ríkið vegna fóstureyðingarlaga

Leikkonan Amy Schumer er á meðal þeirra sem skorar á …
Leikkonan Amy Schumer er á meðal þeirra sem skorar á stjórrnvöld í Georgíu. AFP

Hátt í 50 þekktir Hollywoodleikarar skora á stjórnvöld í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum að samþykkja ekki fyrirhugaða fóstureyðingarlöggjöf sem hefur verið lögð fram. Einnig hóta þeir að starfa ekki í ríkinu ef hún nær fram að ganga. BBC greinir frá. 

Löggjöfin kveður á um að banna skuli fóstureyðingar í þeim tilfellum þar sem hjartsláttur greinist en alla jafna greinist hann í sex vikna gömlum fóstrum. Ef hún verður samþykkt yrðu þetta á meðal ströngustu laga um fóstureyðingar sem eru í gildi.      

Brian Kemp, ríkisstjóri Georgíu, lagði fram frumvarpið nýverði. Áætlað er að þetta taki gildi 1. janúar næstkomandi en viðbúið er að erfitt verði að koma löggjöfinni í gegnum þingið.  

Áætlað er að sjónvarpsþáttagerð og kvikmyndatökur skili Georgíu árlega um 2,7 milljörðum dollara, samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjóranum.  

Vinsælar myndir á borð við,  Black Panther og The Hunger Games og sjónvarpsþættir Stranger Things og The Walking Dead voru teknir upp þar.  

Stjörnur á borð við Alyssa Milano, Amy Schumer, Christina Applegate, Alec Baldwin og Sean Penn skrifuðu undir áskorunina í mars. 

„Við viljum vera áfram í Georgíu,“ segir í bréfinu. „En við munum ekki gera það hljóðlaust. Við í okkar starfsstétt munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi kvenna í ríkinu,“ segir ennfremur. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert