Passinn týndur? Farðu á McDonald's

Starfsfólk McDonald's í Austurríki hefur nú fengið það verkefni að …
Starfsfólk McDonald's í Austurríki hefur nú fengið það verkefni að aðstoða bandaríska ríkisborgara við að komast í samband við sendiráðið. AFP

Forsvarsmenn skyndibitakeðjunnar McDonald‘s í Austurríki greindu á dögunum frá því að þeir bandarísku ríkisborgarar sem þurfi á aðstoð að halda þegar þeir eru staddir í landinu eigi að halda beinustu leið á næsta McDonald‘s stað. Bandarísk stjórnvöld og McDonald‘s hafa gert með sér samning þessa efnis og segir sendiráð Bandaríkjanna í Austurríki að hver sá Bandaríkjamaður sem sé „í vanda“, eða hafi tapað vegabréfinu geti nú leitað sér aðstoðar á einum af 194 McDonald‘s stöðum í landinu.

Hefur starfsfólk skyndibitastaðanna fengið það verkefni að aðstoða bandaríska ríkisborgara við að komast í samband við sendiráðið og hefur sérstök hjálparlína, sem er opin allan sólarhringinn verið virkjuð að þessu tilefni.

BBC hefur eftir talsmanni sendiráðsins að með þessu vilji sendiráðið tryggja að Bandaríkjamenn hafa möguleika á að komast í samband þegar þeir þurfi á að halda. Það sé frumskylda „hvers sendiráðs um heim allan“.

Forsvarsmenn McDonald's segjast líta á skyndibitastaðina sem eins konar stuðning og símaskipti og því hafi verið fallist á hugmynd sendiherrans Trevor Traina. Þá muni starfsfólk einnig hjálpa þeim sem þurfi á annarri aðstoð að halda, til að mynda með því að hafa samband við lögreglu eða hjálparsveitir.

Ekki eru allir samfélagsmiðlanotendur sáttir með hugmyndina.

Þannig velti einn Facebook-notandi upp þeirri spurningu hvort þetta sé gert „af því að við erum víst ófær um að leita að bandaríska sendiráðinu á netinu“. Annar var fljótur til og kvaðst vilja fá „einn McPassa til að taka með“ og sá þriðji spurði hvort þetta kæmi í staðinn fyrir sendiráðsstarfsfólk?

Sendiráðið var fljótt að svara því til að svo væri svo sannarlega ekki. Sendiráðið væri fullmannað og samstarfið væri aðeins „ein leið til viðbótar fyrir Bandaríkjamenn að ná sambandi við sendiráðið þegar þeir væru í neyð“.

mbl.is