Strache segir af sér

Heinz-Christian Strache boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hann …
Heinz-Christian Strache boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni. AFP

Heinz-Christian Strache, varakanslari Austurríkis, hefur sagt af sér embætti í kjölfar Ibiza-hneykslismálsins svokallaða. Hann greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi. 

Strache sagði að hann hefði tilkynnt Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, um afsögn sína.

Strache, sem leiðir Frelsisflokkinn í heimalandinu, hefur verið áberandi meðal stjórnmálamanna í Evrópu sem eru lengst til hægri á pólitíska ásnum. Hann segir nú af sér aðeins örfáum dögum fyrir mikilvægar kosningar innan Evrópusambandsins

Í gær birtu þýskir fjölmiðlar fréttir þess efnis að Strache hefði lofað meintum rússneskum fjárfesti að fá aðstoð við gerð ríkissamninga gegn því að fá pólitískan stuðning. Þetta átti sér stað á fundi á spænsku eyjunni Ibiza sem var myndaður með leynd rétt fyrir þingkosningarnar árið 2017. Rússneski auðjöfurinn reyndist vera blekking. 

Strache heldur því fram að hann hafi verið fórnarlamb skipulagðrar pólitískrar atlögu og að aðferðin sem hafi verið notuð haf verið ólögleg. Hann hafi þrátt fyrir það ákveðið að víkja til að koma í veg að ríkisstjórnin verði fyrir frekari skaða. 

Þýsku fjölmiðlarnir Der Spiegel og Sueddeutsche Zeitung birtu í gær fréttir þar sem sýndar eru upptökur frá fundinum á Ibiza sem voru teknar án þess að Strache hefði hugmynd um það. 

Á upptökunum sjást þeir Strache og Johann Gudenus, samflokksmaður hans, ræða við konu sem segist vera frænka rússnesks auðjöfurs, en hún kveðst vera að leita að fjárfestingartækifærum í Austurríki. 

Hún nefnir það sérstaklega að hún vilji eignast ráðandi hlut í einu stærsta fréttablaði landsins, Krone Zeitung. Strache nefnir það að nýir eigendur gætu gert breytingar á blaðinu og notað það til að liðsinna Frelsisflokknum í kosningabaráttunni. 

Hann segir í framhaldinu að konan gæti fengið aðstoð í tengslum þegar það kæmi að opinberum samningum ríkisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert