Mexíkó sendir herafla að landamærunum

Mexíkóska herlögreglan á vakt við eina eftirlitstöðvanna í útjaðri Tapachula.
Mexíkóska herlögreglan á vakt við eina eftirlitstöðvanna í útjaðri Tapachula. AFP

Stjórnvöld í Mexíkó hafa nú sent 6.000 manna þjóðvarðalið að landamærunum sem ríkið deilir með Gvatemala. Vonast þau með þessu til að geta stemmt stigu við straumi hælisleitenda sem vilja komast til Bandaríkjanna. BBC greinir frá.

Marcelo Ebrard, utanríkisráðherra Mexíkó, er þessa dagana í Washington þar sem hann reynir að sannfæra bandarísk stjórnvöld um að láta af þeirri áætlun sinni að hækka tolla á vörur frá Mexíkó vegna hælisleitendastraumsins. Hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti heitið því að setja 5% innflutningstoll á vörur frá Mexíkó strax á mánudag, náist ekki samkomulag.

Sagði Trump á miðvikudag að „ekki nándar nærri nægur“ framgangur væri í viðræðunum, en hann vill að yfirvöld í Mexíkó stöðvi för hælisleitenda, sem flestir koma frá ríkjum Mið-Ameríku.

Erbrard kvaðst hins vegar að loknum viðræðum í gær vera „bjartsýnn maður“.

Að sögn Erbrard verða þjóðvarðliðar á vakt við landamærin til að hindra hælisleitendur að koma til landsins. „Við höfum útskýrt að þetta eru 6.000 menn sem verða sendir þangað,“ sagði Erbrard og kvað viðræðum verða haldið áfram í dag.

Tollahækkanirnar sem Trump hefur hótað kveða á um að innflutningstollar hækki um 5% í hverjum mánuði á varningi á borð við bíla, bjór, tekíla, ávexti og grænmeti, allt þar til í október þegar tollarnir verða komnir upp í 25%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert