Fjöldi frambjóðenda ræðst í dag

Átta af þeim ellefu flokksmönnum Íhaldsflokksins sem lýst hafa yfir …
Átta af þeim ellefu flokksmönnum Íhaldsflokksins sem lýst hafa yfir áhuga á formennsku í flokknum: Jeremy Hunt utanríkisráðherra, Boris Johnson fyrrverandi utanríkisráðherra, Michael Gove umhverfisráðherra, Dominic Raab fyrrverandi Brexitmálaráðherra, Rory Stewart ráðherra þróunarmála, Esther McVey fyrrverandi vinnumálaráðherra, Andrea Leadsom fyrrverandi leiðtogaineðri deildar breska þingsins, og Matt Hancock heilbrigðisráðherra. AFP

Í dag ræðst hverjir verða í framboði til embættis formanns breska Íhaldsflokksins. Ellefu flokksmenn hafa lýst yfir áhuga á að leiða flokkinn sem og bresku þjóðina í hlutverki forsætisráðherra og þurfa þau að skila inn meðmælum frá átta þingmönnum flokksins.

Theresa May hætt­i form­lega sem leiðtogi Íhalds­flokks­ins á föstu­dag­inn en hún mun hins veg­ar sitja áfram sem for­sæt­is­ráðherra þar til eft­ir­maður henn­ar hef­ur verið val­inn.

Frestur til að skila meðmælum rann út klukkan 16 að staðartíma og von er á tilkynningu um samþykkt framboð hvað úr hverju. Jeremy Hunt, Dominic Raab, Michael Gove og Matt Hancock voru hins vegar ekkert að hika við hlutina og hrintu af stað kosningaherferðum sínum í dag.

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, er af mörgum talinn líklegastur til …
Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, er af mörgum talinn líklegastur til að taka við af May sem formaður Íhaldsflokksins. AFP

Sam Gyimah, eini Íhaldsmaðurinn sem lýst hafði áhuga á leiðtogastöðunni sem er hlynntur nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit, hefur dregið framboð sitt til baka. Sagði hann ekki nægan tíma til stefnu til að afla nægilegs stuðning.

Að fá samþykkt framboð er hins vegar bara fyrsta skrefið í átt að leiðtogaembætti Íhaldsflokksins. Á fimmtudag greiða allir þingmenn flokksins atkvæði um þau sem skila inn gildu framboði í dag. Þau sem fá 17 atkvæði eða fleiri fara áfram í næstu umferð, sem fram fer í næstu viku. Í þeirri umferð þarf 33 atkvæði til að eiga möguleika á formannsembættinu. Þannig gengur það þar til tveir frambjóðendur standa eftir.

130 þúsund eru skráðir í Íhaldsflokkinn og hafa allir kosningarétt til að kjósa á milli tveggja frambjóðenda sem standa eftir og hefst sú atkvæðagreiðsla 22. júní. Mánuði síðar tekur nýr leiðtogi við embætti formanns breska Íhaldsflokksins.

Hér má fylgjast með beinni lýsingu BBC af framvindu mála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert