Sagður hafa verið uppljóstrari CIA

Kim Jong-nam var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur.
Kim Jong-nam var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur. AFP

Kim Jong-nam, hálfbróðir norðurkóreska leiðtogans Kims Jong-un, var uppljóstrari bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. The Wall Street Journal greinir frá þessu og hefur eftir nafnlausum heimildarmanni.

Að sögn blaðsins hitti Kim Jong-nam fulltrúa CIA í þó nokkur skipti.

Kim Jong-nam var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur í Malasíu árið 2017. Hann var eitt sinn talinn líklegur til að taka við stjórn Norður-Kóreu.

Heimildarmaður The Wall Street Journal segir að tengsl hafi verið á milli Kim Jong-nam og CIA en blaðið greinir frá því að enn sé margt óljóst varðandi samstarf þeirra.

Önnur kvennanna sem var sökuð um morðið, Doan Thi Huong, …
Önnur kvennanna sem var sökuð um morðið, Doan Thi Huong, er hún var látin laus úr haldi í síðasta mánuði. AFP

Að sögn heimildarmannsins ferðaðist Kim til Malasíu í febrúar 2017 til að hitta tengilið sinn hjá CIA en hugsanlegt er að það hafi ekki verið eini tilgangur ferðalagsins.

Tvær konur voru handteknar og ákærðar fyrir morðið á Kim Jong-nam. Þær sögðust hafa verið gabbaðar af Norður-Kóreumönnum til að fremja morðið. Sögðust þær hafa haldið að þær væru að taka þátt í hrekk vegna raunveruleikasjónvarps.

Ákærur gegn þeim voru síðar felldar niður og var fyrri konunni sleppt úr haldi í mars og þeirri síðari í maí.

Suðurkóresk stjórnvöld hafa sakað nágranna sína í norðri um að hafa fyrirskipað morðið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert