Gefur tugi milljarða til háskóla

Milljarðarmæringurinn Stephen Schwarzman.
Milljarðarmæringurinn Stephen Schwarzman. Ljósmynd/Wikipedia.org

Oxford-háskóli á Englandi hefur nú hlotið stærsta framlag sem breskur háskóli hefur fengið í sögunni fyrir nýja stofnun innan skólans sem kemur til með að leggja áherslu á siðfræði gervigreindar. Bandaríski milljarðamæringurinn Stephen Schwarzman, sem hefur meðal annars veitt forsetum repúblíkana ráðgjöf, gaf skólanum 150 milljón sterlingspund, eða tæplega 24 milljarða íslenskra króna.

Eftir því sem að fram kemur á vef BBC segja bresk stjórnvöld að framlagið sé þýðingarmikil fjárfesting fyrir Bretland á heimsvísu.

Schwarzman er bæði stofnandi og forstjóri sjóðsstýringarfyrirtækisins Blackstone og er einn af þekktustu milljarðarmæringum Bandaríkjanna. Hann var lengi vel gagnrýndur fyrir eyðslusemi sína en hefur upp á síðkastið vakið athygli fyrir að gefa gríðarlegt fjármagn til menntunar- og góðgerðarmála.

Stórmál okkar samtíma 

Í samtali við BBC sagði Schwarzman að framlagið til Oxford væri til komið vegna þess að gervigreind sé stórmál okkar samtíma og að stjórnvöld séu víðast hvar illa búin undir þær áskoranir sem fylgja þessari nýju tækni.

„Stjórnvöld munu þurfa að treysta á frábæra háskóla eins og Oxford og fleiri skóla víðsvegar um heiminn sem sérhæfa sig í að hugsa þetta í gegn.“

Schwarzman segir menntastofnanir verða að vinna að því að búa til siðferðislegan ramma utan um þá þróun sem er að eiga sér stað á sviði tæknigreindar.

Nýlega gaf Schwarzman MIT-há­skól­anum í Banda­ríkj­un­um 279 milljón sterlingspunda framlag, eða því sem nemur rúmlega 44 milljörðum króna. Var framlagið hugsað fyrir nýja deild í tölvunarfræði og gervigreindarþróun við skólann.

Aðeins nokkrir mánuðir eru síðan breski milljarðarmæringurinn og vogunarsjóðsstjórinn David Harding gaf Cambridge-háskóla 100 milljón sterlingspund, eða tæplega 16 milljarða króna.

mbl.is