Ástralinn laus úr haldi í Norður-Kóreu

Alek Sigley, er heill á húfi eftir dvöl í Norður-Kóreu. …
Alek Sigley, er heill á húfi eftir dvöl í Norður-Kóreu. Hann vildi ekki tjá sig við fjölmiðla hvar hann hafi verið niðurkominn síðustu vikur. AFP

„Ég er í góðu lagi. Ég hef það gott. Mjög gott,“ sagði Alek Sigley, ástralskur háskólanemi í Norður-Kóreu, við blaðamenn þegar hann birtist skyndilega í borginni Beijing í Kína. Þetta væri vart frásögufærandi nema fyrir þær sakir að ekkert hafði spurst til hans frá 23. júní síðastliðinn.

Fjölskylda hans óttaðist um afdrif hans í ljósi þess að fjölmargir Vesturlandabúar hafa verið fangelsaðir í ríkinu. Alek var einn af fáum frá Vesturlöndum sem fékk að stunda nám í Norður-Kóreu. 

Í Kína lá leið hans í ástralska sendiráðið. Skömmu síðar flaug hann til Japans þar sem eiginkona hans býr. Alek vildi ekki tjá sig við fjölmiðla um hvar hann hafi haldið til frá 23. júní til 4. júlí.  

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, greindi fjölmiðlum frá því að honum hefði verið sleppt úr haldi í Norður-Kóreu og væri heill á húfi. 

Faðir Alek, Gary Sigley, sem er prófessor í kínversku og asískum fræðum, tjáði sig einnig við fjölmiðla að fjölskyldan sé óheyrilega hamingjusöm að hann sé heill á húfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert