Lögregluaðgerð vegna norsks barnaníðings

Filippseyskt sjónvarpsfréttateymi var með í för þegar lögreglan í Taguig …
Filippseyskt sjónvarpsfréttateymi var með í för þegar lögreglan í Taguig City réðst til inngöngu í hús þar í borg eftir margra mánaða samstarf við norsku rannsóknarlögregluna Kripos sem hafði þar fundið viðskiptafélaga norska barnaníðingsins. Tvennt var handtekið og fimm ára stúlku bjargað úr húsinu. Skjáskot/ABS-CBN

Viðskipti norsks barnaníðings frá Troms-fylki við samstarfsaðila á Filippseyjum, sem norska rannsóknarlögreglan Kripos hefur farið ofan í saumana á síðan í febrúar í fyrra, leiddi til þess að vopnuð lögregla í Taguig City á Filippseyjum réðst til inngöngu í hús í síðustu viku og bjargaði þaðan fimm ára gamalli stúlku. Húsráðendur, maður og kona, voru handtekin á staðnum.

Maðurinn frá Troms, sem lögregla verst allra frétta um og gefur ekki einu sinni upp aldursskeið miðað við áratug sem er óvenjulegt, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í febrúar í fyrra og á brátt von á ákæru eftir umfangsmikla rannsókn lögreglu. 

Leiddi rannsóknin meðal annars í ljós að maðurinn hafði pantað kynferðislega misnotkun á börnum einkum á aldrinum 14 til 16 ára fyrir nokkur hundruð þúsund norskar krónur og fengið sendar upptökur af athöfnunum netleiðis. Fyrir hverja pöntun greiddi maðurinn á bilinu 200 til 400 norskar krónur (tæpar 3.000 til 6.000 íslenskar krónur). Talið er að brot hans nái allt aftur til ársins 2013.

Biður um barn á ákveðnum aldri eða fær tilboð

Linn Rognli Hansen, lögmaður lögreglunnar í Mið-Troms, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að þrátt fyrir að lögreglunni sé kunnugt um nokkurn veginn heildarupphæð viðskipta mannsins tákni það ekki að henni takist að færa sönnur á hvert einasta tilvik.

„Aðilinn sem situr og horfir á biður annaðhvort um barn á ákveðnum aldri eða fær tilboð um barn á ákveðnum aldri,“ segir Hansen. „Hann lætur svo vita gegnum spjallrás hvernig hann óskar að brotið sé gegn barninu,“ heldur hún áfram.

Efri hluti myndarinnar skyggður á meðan lögregla ber fimm ára …
Efri hluti myndarinnar skyggður á meðan lögregla ber fimm ára gamla stúlku út úr húsinu. Norskur barnaníðingur gæti átt yfir höfði sér allt að 21 árs fangelsi fyrir viðskipti sín við húsráðendur síðustu sex ár verði hann sekur fundinn um brot gegn 301. grein norsku hegningarlaganna sem er ein fjögurra greina sem líklegt er að hann verði ákærður á næstu vikum fyrir að gerast brotlegur við. Skjáskot/ABS-CBN

Sá sem hér bíður ákæru gæti átt von á einhverju af, eða öllu, eftirfarandi úr norsku hegningarlögunum:

195. grein: Fyrir samverknað við það að annar aðili hafi kynferðislegt samneyti við barn yngra en 14 ára á sérlega sársaukafullan eða niðurlægjandi hátt. Refsirammi 10 ár.

301. grein: Fyrir samverknað við það að annar aðili hafi kynferðislegt samneyti við barn yngra en 14 ára, að fá barn yngra en 14 ára til að framkvæma athafnir, sem jafna má við kynferðislegar athafnir, gagnvart sjálfu sér eða hafa kynferðislegt samneyti við barn yngra en 14 ára. Refsirammi 21 ár.

302. grein: Fyrir að hafa kynferðislegt samneyti við barn á aldursskeiðinu 14 til 16 ára eða fá barn á aldursskeiðinu 14 til 16 ára til að framkvæma athafnir, sem jafna má við kynferðislegar athafnir, gagnvart sjálfu sér. Refsirammi 6 ár.

305. grein: Fyrir að þvinga eða tæla barn yngra en 16 ára til að sýna kynferðislega niðurlægjandi eða aðra óviðeigandi háttsemi. Refsirammi 1 ár.

Samstarfið við norsku lögregluna mikilvægt

Sheila Portento, deildarstjóri PNP – WCPC-deildar filippseysku lögreglunnar, sem vinnur með mál er snúa að árásum og ofbeldi gegn konum og börnum, segir í samtali við norska miðilinn Nordlys, sem rekur læsta fréttasíðu, en NRK hefur eftir, að samstarfið við norsku lögregluna hafi reynst sérstaklega mikilvægt í málinu, en rannsóknin á viðskiptatengslum mannsins frá Troms hefur staðið vel á annað ár.

„Við vitum ekki hversu mikið þessi aðgerð mun nýtast okkur í málinu, en gleðjumst yfir að hafa átt þátt í að fimm ára gamalli stúlku var bjargað úr höndum níðinga,“ segir Hansen hjá lögreglunni í Mið-Troms að lokum við NRK.

NRK

TV2

Folkebladet (myndskeið ABS-CBN-stöðvarinnar af innrás lögreglu í húsnæðið)

Aftenposten (læst nema inngangur)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert