Tígurinn fékk sér blund uppi í rúmi

Tígrisdýr að læðast á Indlandi. Mynd úr safni.
Tígrisdýr að læðast á Indlandi. Mynd úr safni. AFP

Tígrisynja, sem flúði úr þjóðgarði í Assam-fylki á Indlandi vegna flóða sem fylgt hafa monsúnrigningunum, fannst í gærmorgun sofandi í rúmi eins íbúa í nágrenninu. BBC greinir frá.

Talið er að tígrisynjan hafi flúið úr Kaziranga-þjóðgarðinum, en 50 dýr hafa drepist þar í flóðunum undanfarna daga. Dýraverndarsamtökin Wildlife Trust of India segja fyrst hafa sést til tígrisynjunnar við þjóðveg skammt frá þjóðgarðinum. Telja samtökin líklegt að hún hafi hrakist frá veginum vegna umferðarinnar og leitað í kjölfarið skjóls í húsi í nágrenninu.

Rathin Barman, sem fór fyrir björgunaraðgerðum, sagði tígrisynjuna hafa komið inn í húsið snemma morguns og hún hefði svo sofið þar allan daginn. „Hún var örmagna og fékk sér heilsdags góðan lúr,“ sagði hann.

Eigandi hússins, Motilal, sem rekur verslun í næsta húsi, flúði ásamt fjölskyldu sinni um leið og tígrisynjan gekk þar inn.

„Það er svo frábært að enginn truflaði hana, þannig að hún gat hvílst. Það er mikil virðing borin fyrir náttúrulífinu á þessum slóðum,“ sagði Barman.

Starfsfólk dýraverndarsamtakanna var svo kallað til og útbjó það örugga útgangsleið fyrir tígrisynjuna, m.a. með því að stöðva umferð um þjóðveginn í um klukkustund. Púðurkerlingar voru svo notaðar til að vekja tígrisynjuna sem var eftir lúrinn beint í átt að skóginum á nýjan leik.

Eigandi hússins hefur sagst ætla að varðveita koddann sem tígrisynjan svaf á.

Kaziranga-þjóðgarðurinn er heimkynni 110 tígrisdýra.

mbl.is