111 ára Svíi á rafskutlu

Carl Mattsson tók nýlega við titlinum elsti Svíi allra tíma …
Carl Mattsson tók nýlega við titlinum elsti Svíi allra tíma og er að auki elsti maður á Norðurlöndunum. Sænskir fjölmiðlar ræddu við Mattsson á þessum tímamótum. Ljósmynd/Jakob Simonson/Strömstads Tidende

„Það skiptir mig engu máli, ég hef ekkert á móti því að verða gamall. Það er svo sem ekki eins og ég hafi eitthvað um þetta að segja,“ svarar Carl Mattsson, nýkrýndur elsti Svíi allra tíma og að auki elsti maður á Norðurlöndunum, þegar blaðamaður Strömstads Tidende spyr hann út í titilinn.

Mattsson býr á heimili fyrir eldri borgara í Strömstad en er ótrúlega ern miðað við árafjöldann, maður fæddur 7. mars 1908 á eyjunni Tjörn í Bohus, norður af Gautaborg. Hann er farinn að tapa heyrn en ekki þarf annað en að horfa á heimsókn sjónvarpsmanna TV4 í Svíþjóð sem heimsóttu hann á 111 ára afmælinu í mars til að sjá að Mattsson er fjallhress, spjallar við starfsfólk heimilisins, hlær hjartanlega og grípur símtólið þegar heillaóskirnar streyma inn, óhætt þó að fullyrða að engar þeirra koma frá jafnöldrum.

„Maður gerir eins gott úr lífi sínu og manni er unnt. Ég hef lifað hefðbundnu lífi og ek enn um á rafskutlunni minni,“ segir Mattsson í samtali við sænska Aftonbladet. Hann ólst upp með foreldrum, fjórum systkinum og föðurömmu og ömmunni þakkar hann langlífið, segir hana alltaf hafa gætt þess að þau systkinin fengju hollt og gott að borða.

Golfari til 105 ára aldurs

Mattsson var mikill golfáhugamaður og lék golf þar til hann var 105 ára, þá leyfði skrokkurinn það ekki lengur að hans sögn. „Það er mikil synd, það var svo gott að komast út og hreyfa sig, nú verð ég bara svo fljótt þreyttur,“ segir golfáhugamaðurinn aldni í viðtalinu við Strömstads Tidende.

Sænska sjónvarpsstöðin TV4 heimsótti Mattsson á 111 ára afmælinu 7. …
Sænska sjónvarpsstöðin TV4 heimsótti Mattsson á 111 ára afmælinu 7. mars og fjallaði um hann í þættinum Nyhetsmorgon. Hafði Mattsson nóg að gera við að taka á móti afmæliskveðjum. Í síðustu viku varð hann elsti Svíi allra tíma þegar hann varð 111 ára og 125 daga gamall en eldra metið átti Anders Engberg sem varð 111 ára og 124 daga gamall og lést árið 2003. Skjáskot/YouTube

Mattsson tók við titlinum elsti Svíi allra tíma af Anders Engberg í síðustu viku en sá lést árið 2003 og varð 111 ára og 124 daga gamall. Slíkur árafjöldi mannsævinnar hefur auðvitað sínar döpru hliðar. Birgit, eiginkona Mattsson, er löngu látin og hvarfla augu hans annað slagið að brúðkaupsmyndinni þeirra sem stendur á borði við hlið hans meðan á spjallinu við Jakob Simonson, blaðamann Strömstads Tidende, stendur. „Börnin mín og barnabörnin eru dreifð út um allt land. Það lifnar yfir öllu þegar einhver kemur í heimsókn,“ segir höfðinginn aldni.

„Maður hugsar mikið til gömlu tímanna og hennar minnist ég gjarnan,“ segir Mattsson að lokum og gýtur augunum enn á brúðkaupsmynd þeirra Birgit.

Aftonbladet

Strömstads Tidende

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert