„Allt í einu er rifið í stöngina“

Lúða af séra Guðmundarkyninu komin upp á yfirborðið, 124 kílógramma …
Lúða af séra Guðmundarkyninu komin upp á yfirborðið, 124 kílógramma þung og 209 sentimetra löng, andlag allra veiðidrauma Bilal Saab og vinahópsins frá blautu barnsbeini. Ljósmynd/Rickard Hansson

„Við vorum við það að snúa til lands þegar allt í einu er rifið í stöngina hjá mér,“ segir hinn tvítugi Bilal Saab frá Hasvik á Sørøya í Finnmörku í Norður-Noregi í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í fyrradag þar sem hans stærsta veiðisaga á ferlinum hingað til leit dagsins ljós, en þeir félagarnir, sem voru nokkrir saman úti á þremur bátum, drógu þá 124 kílógramma 209 sentimetra lúðu upp á yfirborðið með samstilltu átaki og segja myndir Rickard Hansson, sem Saab leyfði mbl.is góðfúslega að birta, meira en mörg orð.

Veiðimaðurinn ungi starfar sem leiðsögumaður hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Big Fish Adventure í Hasvik sem býður ævintýraþyrstum ferðamönnum upp á djúpsjávar- og annars konar fiskveiði á hafinu umhverfis Sørøya. Þeir félagarnir voru þó ekki með ferðamannahóp á miðvikudaginn, voru bara sjálfir á lúðu, en þeir sleppa allri lúðu sem þeir veiða. „Þú setur þetta ekkert í frystinn hjá þér,“ segir Saab og hlær.

Jötunn dreginn úr greipum ægis með samstilltu átaki úti fyrir …
Jötunn dreginn úr greipum ægis með samstilltu átaki úti fyrir Sørøya í Finnmörku. Bilal Saab segist hafa rekið upp gleðiöskur þegar hann sá fenginn sem þó var sleppt aftur til heimkynna sinna í djúpinu. Ljósmynd/Rickard Hansson

„Ég gat ekkert dregið inn, var farinn að halda að ég hefði fest línuna. Svo áttuðum við okkur á að við vorum komnir með risafisk á,“ segir Saab. Með samstilltu átaki drógu þeir félagar færið inn og að lokum vitraðist þeim sýn sem Saab mun seint gleyma.

„Ég öskraði bara. Á bak við þennan dag eru mörg þúsund veiðitímar. Þarna kom hann upp, fiskurinn sem við höfum talað og látið okkur dreyma um síðan við vorum börn. Þetta var magnað,“ segir Saab og ekki örgrannt um í veiðisögum framtíðarinnar að rýrt muni verða fyrir honum smámennið.

Fékk 314 kg lúðu haustið 2007

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gríðarstór lúða er dregin úti fyrir ströndum Finnmerkur, nyrsta fylkis Noregs, 6. október 2007 veiddi Tom Richard Kristiansen 314,5 kílógramma lúðu, þriggja metra langa og eins metra breiða. Eitthvað sem Íslendingar segðu kannski að væri „rosalega 2007“ sem var vinsælt orðatiltæki hér um árið.

Bilal Saab og lúðuflikkið stilla sér upp fyrir myndatöku áður …
Bilal Saab og lúðuflikkið stilla sér upp fyrir myndatöku áður en risinn var kvaddur og honum sleppt. Ljósmynd/Rickard Hansson

Saab smeygði sér að lokum í þurrbúning og kastaði sér í sjóinn hjá feng þeirra félaga fyrir myndatöku. „Við brugðum bandi á hana svo hún þyrfti ekki að vera með öngulinn í kjaftinum of lengi,“ segir hann. „Svo slepptum við henni, við tökum ekki upp fiska yfir 130 sentimetra að lengd. Maður þarf líka að hugsa um stofninn, stórlúða getur eignast milljónir afkvæma á æviskeiði sínu og maður vill ekki höggva slíkt skarð í stofninn.“

Auk þessa setti norska sjávarútvegsráðuneytið reglur um það árið 2017 að veiddum stórlúðum skyldi veita frelsi vegna þess hve óæskilegt þykir að þær fari í manneldi, dýrin innihalda oftast óæskilegt magn þungmálma og eiturefna.

Hvað sem því líður rættist langþráður æskudraumur hóps ungra fiskileiðsögumanna í Finnmörku svo um munar á miðvikudaginn.

VG greindi einnig frá veiðiferðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina