Eflir enn kjarnorkuherafla sinn

Kim Jong-un einræðisherra horfir með sjónauka á skammdræga eldflaug sem …
Kim Jong-un einræðisherra horfir með sjónauka á skammdræga eldflaug sem skotið var á loft í Norður-Kóreu í lok síðustu viku. AFP

Ein­ræðis­stjórn­in í Norður-Kór­eu seg­ir að nýj­ustu eld­flauga­tilraun­ir sín­ar séu „al­var­leg viðvör­un“ til stjórn­valda í Suður-Kór­eu sem hún lýs­ir sem „stríðsæs­inga­mönn­um“.

Norður-Kór­eu­menn skutu tveim­ur skammdræg­um eld­flaug­um sem lentu í Jap­ans­hafi í fyrra­dag. Rann­sókn­ir á gervi­hnatta­mynd­um hafa einnig bent til þess að Norður-Kór­eu­menn hafi haldið áfram smíði lang­drægra eld­flauga og fram­leiðslu kjarnkleyfra efna sem notuð eru í kjarna­vopn þrátt fyr­ir fundi Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta með norðurkór­eska ein­ræðis­herr­an­um Kim Jong-un, að sögn The Wall Street Journal.

Blaðið hef­ur eft­ir sér­fræðing­um leyniþjón­ustu banda­ríska varn­ar­málaráðuneyt­is­ins að Norður-Kór­eu­menn kunni að hafa fram­leitt allt að tólf kjarna­vopn frá fyrsta fundi Trumps með Kim í Singa­púr í fyrra. Talið er að Norður-Kór­eu­menn eigi núna alls 20-60 kjarn­orku­sprengj­ur sem hægt væri að beita með til­tölu­lega skömm­um fyr­ir­vara.

Trump hef­ur gert lítið úr mati banda­rískra ör­ygg­is­stofn­ana á hætt­unni sem staf­ar af kjarna­vopn­um ein­ræðis­stjórn­ar­inn­ar og sagði ný­lega í sjón­varps­viðtali að Kim hefði „lofað“ að fram­leiða ekki kjarna­vopn. Áður hafði hann sagt að Kim hefði verið „mjög hrein­skil­inn“, „mjög heiðvirður“ og „mjög ein­læg­ur“ í viðræðum þeirra um kjarn­orku­af­vopn­un á Kór­eu­skaga. Trump talaði um að sam­band sitt við ein­ræðis­herr­ann væri „dá­sam­legt“ og sagði á fundi með stuðnings­mönn­um sín­um í októ­ber að þeir Kim hefðu orðið „ást­fangn­ir“.

Gagn­rýn­ir heræf­ing­ar

Fjöl­miðlar ein­ræðis­stjórn­ar­inn­ar í Norður-Kór­eu sögðu að Kim hefði haft yf­ir­um­sjón með eld­flauga­tilraun­inni í fyrra­dag til að vara „stríðsæs­inga­menn­ina“ í Suður-Kór­eu við. Þetta var fyrsta eld­flauga­skot Norður-Kór­eu­manna frá fundi Trumps með ein­ræðis­herr­an­um á hlut­lausa belt­inu við landa­mæri Kór­eu­ríkj­anna í júní.

Kim sagði að ein­ræðis­stjórn­in hefði neyðst til að þróa „ofuröflug“ vopn til að verj­ast ógn­um við þjóðarör­yggi Norður-Kór­eu. Áður höfðu fjöl­miðlar lands­ins gagn­rýnt ákvörðun stjórn­valda í Suður-Kór­eu og Banda­ríkj­un­um um að efna til sam­eig­in­legra heræf­inga í næsta mánuði. Ein­ræðis­stjórn­in hef­ur alltaf haldið því fram að mark­miðið með heræf­ing­um land­anna tveggja sé að und­ir­búa inn­rás í Norður-Kór­eu. Banda­ríkja­stjórn frestaði eða dró úr viðamestu heræf­ing­un­um með Suður-Kór­eu eft­ir fyrsta fund Trumps með Kim í júní á síðasta ári en um­fangs­minni æf­ing­um hef­ur verið haldið áfram, að sögn banda­rískra emb­ætt­is­manna. Um 29.000 banda­rísk­ir her­menn eru í Suður-Kór­eu í sam­ræmi við varn­ar­samn­ing ríkj­anna eft­ir að Kór­eu­stríðinu lauk árið 1953.

Ljósmynd af skammdrægu eldflauginni sem skotið var á loft sl. …
Ljósmynd af skammdrægu eldflauginni sem skotið var á loft sl. fimmtudag. Frétta­skýr­andi BBC seg­ir að mark­miðið með eld­flauga­tilraun­un­um kunni að vera að reka fleyg á milli stjórn­valda í Washingt­on og Seoul. AFP

Kim kvaðst vera ánægður með hvernig til­raun­in í fyrra­dag heppnaðist og sagði að ekki yrði auðvelt að verj­ast eld­flaug­un­um. Talið er að Norður-Kór­eu­menn séu að þróa skammdræga eld­flaug sem geti flogið lágt og breytt stefnu sinni til að minnka lík­urn­ar á því að hægt yrði að skjóta hana niður, að sögn varn­ar­málaráðuneyt­is Suður-Kór­eu. Fyrr í vik­unni skoðaði Kim einnig nýja gerð kaf­báta sem sum­ir sér­fræðing­ar telja að geti borið eld­flaug­ar.

Gagn­rýn­ir ekki Banda­rík­in

Kim gagn­rýndi ekki Banda­ríkja­stjórn í yf­ir­lýs­ingu sinni um heræf­ing­arn­ar og stjórn hans hef­ur forðast gagn­rýni á Banda­rík­in að und­an­förnu í von um að fram­hald verði á viðræðunum við Trump.

Stjórn­völd í Suður-Kór­eu hvöttu ein­ræðis­stjórn­ina til að hætta eld­flauga­tilraun­un­um og sagði að land­inu stafaði hætta af þeim. Trump og ut­an­rík­is­ráðherra hans, Mike Pom­peo, gerðu hins veg­ar lítið úr þýðingu til­raun­anna. Pom­peo sagði að mark­miðið með þeim væri aðeins að styrkja samn­ings­stöðu NorðurKór­eu­manna í kom­andi viðræðum.

Banda­ríkja­stjórn vill halda viðræðunum áfram þar sem eld­flauga­tilraun­irn­ar í fyrra­dag eru ekki tald­ar bein ógn við meg­in­land Banda­ríkj­anna. „Norður-Kór­eu­menn þyrftu að sprengja kjarna­odd á Times Square til að koma í veg fyr­ir að Trump reyni að ná þess­um samn­ingi,“ hef­ur The Wall Street Journal eft­ir Daniel Snei­der, sér­fræðingi í ör­ygg­is­mál­um Asíu við Stan­ford-há­skóla.

Treysta ekki Banda­ríkj­un­um

Frétta­skýr­andi BBC seg­ir að mark­miðið með eld­flauga­tilraun­un­um kunni að vera að reka fleyg á milli stjórn­valda í Washingt­on og Seoul. Stjórn Suður-Kór­eu hafi þegar hvatt til þess að refsiaðgerðir gegn Norður-Kór­eu verði mildaðar en stjórn Trumps hef­ur hafnað því og sagt að fyrst verði Norður-Kór­eu­menn að fall­ast á að eyða kjarna­vopn­um sín­um.

Sér­fræðing­ar í mál­efn­um Norður-Kór­eu telja að von­irn­ar sem Trump hef­ur bundið við fund­ina með Kim séu óraun­hæf­ar og beri keim af ósk­hyggju. „Norður-Kór­eu­stjórn get­ur ekki látið vopn sín af hendi og beðið síðan eft­ir því að Banda­ríkja­stjórn aflétti refsiaðgerðum,“ hef­ur The Wall Street Journal eft­ir Kim Joon-hyung, pró­fess­or í alþjóðasam­skipt­um í Suður-Kór­eu. „Það væri aðeins mögu­legt ef Norður-Kór­eu­menn bæru fullt traust til Banda­ríkja­manna. Það gera þeir ekki, þess vegna get­ur Norður-Kór­eu­stjórn ekki beðið lengi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert