Tennurnar festust í hálsi sjúklings

Tennurnar sjást hér í hálsi mannsins.
Tennurnar sjást hér í hálsi mannsins. Ljósmynd/BMJ

Karlmaður á áttræðisaldri lenti í því að fölsku tennurnar festust í hálsi hans er hann var í skurðaðgerð og það liðu átta dagar þar til nokkur varð þess var.

CNN segir manninn hafa farið í aðgerð vegna skaðlaus hnúðs sem myndast hafði á magaveggnum. Skurðlæknateymið sem gerði aðgerðina fjarlægði hins vegar ekki fölsku tennurnar úr munni hans áður en aðgerðin var gerð.

Maðurinn kom svo aftur á spítalann sex dögum síðar og kvartaði þá undan blóði í munni og erfiðleikum við að anda og kyngja, sem aftur gerði honum erfitt um vik að neyta fastrar fæðu.

Frekari aðgerða var því þörf til að ná tönnunum aftur, en greint var á frá málinu í breska læknatímaritinu British Medical Journal. Höfundur greinarinnar, Harriet Cunniffe hjá James Paget-sjúkrahúsinu í austurhluta Englands, hvetur skurðlækna til að tryggja að falskar tennur séu fjarlægðar úr sjúklingum áður en gerð er á þeim aðgerð.

Þegar maðurinn kom í fyrstu endurkomu sína á bráðadeildina tókst læknum ekki að greina hvað var að hrjá hann og var hann sendur heim með lyfseðil fyrir munnskol, sýklalyf og stera. Hann kom síðan aftur tveimur dögum síðar og þá voru einkenni hans mun verri. Var hann þá lagður inn vegna gruns um að hann væri með alvarlega lungnasýkingu. Við frekari rannsókn fannst svo hálfhringlaga hlutur við raddbönd hans sem hafði valdið bæði bólgum og blöðrum.

Maðurinn, sem sagðist hafa týnt fölsku tönnunum sínum í upphaflegri sjúkrahúsheimsókn, var í kjölfarið sendur í aðgerð með hraði til að fjarlægja tennurnar úr hálsi hans. Hann þurfti að dvelja á sjúkrahúsi í sex daga til viðbótar og átti við ýmsa aukakvilla að stríða næsta mánuðinn áður en sár hans greru að fullu.

mbl.is