Vilja hækka klifurgjaldið í 4,3 milljónir

Ell­efu létu lífið á leið sinni á tind­inn þetta árið, …
Ell­efu létu lífið á leið sinni á tind­inn þetta árið, en þröng­ur veður­gluggi olli því að tölu­verð röð myndaðist á leið á topp­inn. AFP

Fjallgöngumenn sem hyggjast klífa á topp Mount Everest, hæsta tinds jarðar, munu þurfa að sýna fram á að þeir búi yfir nægjanlegri reynslu, verði tillaga ráðgefandi nefndar á vegum nepalskra stjórnvalda samþykkt. 

Nefndin leggur til að fjallgöngumenn verði að ljúka við að klífa fjall í Nepal sem er að minnsta kosti 6.500 metra hátt áður en þeim verði heimilað að ganga á topp Everest. Þá þurfa fjallgöngumenn einnig að leggja fram vottorð um góða líkamlega heilsu. 

Hundruð fjall­göngu­manna náðu þess­um hæsta tindi jarðar í ár og kann met síðasta árs, er 807 manns náðu tind­in­um, nú að hafa verið slegið. Ell­efu létu lífið á leið sinni á tind­inn þetta árið, en þröng­ur veður­gluggi olli því að tölu­verð röð myndaðist á leið á topp­inn. Níu af ellefu dauðsföllum urðu í suðurhluta fjallsins, sem er í landi Nepals. 

Nefndin leggur einnig til að svokallað klifurgjald verði hækkað í 35 þúsund dollara, eða sem nemur 4,3 milljónum króna. Eins og staðan er í dag getur hver sem er sem greiðir 11 þúsund dollara, eða 1,4 milljónir króna, reynt við toppinn. 

„Við munum taka tillögurnar til greina og endurskoða lagaumgjörðina. Við viljum gera fjöllin okkar öruggari og virðulegri og halda betur um stjórnartaumana,“ segir Yogesh Bhattari, ferðamálaráðherra Nepals. 

Átta af fjórtán hæstu tindum heims eru í Nepal og stór hluti tekna ferðamannaiðnaðarins koma frá fjallgöngumönnum.

Frétt BBC

mbl.is