Fengu fugla í hreyfil og lentu á kornakri

Flugvélin lenti á akri.
Flugvélin lenti á akri. AFP

Árangri rússneska flugstjórans Damir Yusupov er fagnað í dag eftir að honum tókst að lenda Airbus-vél með 233 um borð á kornakri fyrir utan Moskvu, höfuðborg Rússlands, eftir að fuglar soguðust inn í hreyfil flugvélarinnar.

Vél Ural Airlines A321 var á leið til Krímskaga, en skömmu eftir flugtak frá flugvellinum í Moskvu í morgun flaug vélin inn í hóp máva, að því er fram kemur í tilkynningu rússnesku samgöngustofunnar Rosiaviatsa.

Fuglar soguðust inn í hreyfla vélarinnar og ákváðu flugstjórarnir að lenda tafarlaust. Tókst þeim að lenda vélinni á akri um kílómetra frá flugbrautinni án þess að hreyflarnir hafi verið í gangi, en lendingarbúnaðurinn var uppi.

Komust 226 farþegar og sjö manna áhöfn vélarinnar frá borði með uppblásnum neyðarrennibrautum. Í kjölfarið voru 23 farþegar fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi en aðrir aftur til flugstöðvarinnar.

„Þetta gerðist allt á örfáum sekúndum. Við tókum á loft og fórum strax aftur niður,“ sagði Irina Usacheva í samtali við rússneska ríkissjónvarpið Rossiya 24.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert