Heimsendahíbýli milljón dollara iðnaður

Vivos neðanjarðarbyrgir minnir að sögn Robert Vicion mest á þægilegt …
Vivos neðanjarðarbyrgir minnir að sögn Robert Vicion mest á þægilegt fjögurra stjörnu hótel.

Larry Hall er fjálglegur í lýsingum á mikilli lofthæð og rúmgóðum herbergjum er hann ræðir við væntanlega kaupendur. Sundlaugin, sánabaðið og kvikmyndasalurinn fá einnig að fljóta með, en það sem gerir eignina þó virkilega einstaka að mati Hall er að þar má lifa af heimsendi.

New York Times segir áhuga Bandaríkjamanna á að búa sig undir mögulegar hörmungar vera orðin að milljón dollara iðnaði sem endalaus flaumur nýrra og endurnýjaðra ógna gerir lítið til að draga úr.

Hall tilheyrir nýjum hópi verktaka sem ætla sér að hagnast á þessum áhuga, til að mynda með því að fjárfesta í neðanjarðarbyrgjum á sléttum Miðríkja Bandaríkjanna.

Hall hefur þannig breytt neðanjarðarbyrgi sem herinn var með fyrir kjarnorkuflaugar í lúxusíbúðir, sem byggðar eru 15 hæðir niður í jörðina. Þetta, segir New York Times, eru dómsdags kapítalistarnir.

Reistu kjarnorkubyrgi í kalda stríðinu 

Bandaríkjamenn hafa kynslóð eftir kynslóð búið sig undir hrun samfélagsins. Á tímum kalda stríðsins reisti fólk kjarnorkubyrgi og í aðdraganda árþúsundamótanna fyllti það kjallara sínum af birgðum fyrir mögulegar hörmungar vegna væntanlegs hruns tölvukerfa.

575 neðanjarðar vopnageymslur í Suður-Dakóta sem Robert Vicino ætlar að …
575 neðanjarðar vopnageymslur í Suður-Dakóta sem Robert Vicino ætlar að breyta í það sem hann kallar „stærsta samfélag eftirlifenda á jörðunni“. Ljósmynd/Vivos

Á síðustu árum hefur undirbúningur fyrir mögulegar hamfarir hins vegar þróast yfir í milljón dollara iðnaði, sem stöðugur straumur frétta af hamfarahlýnun, hryðjuverkum, netárásum og uppþotum gerir lítið til að stemma við.

Miðlarar og verktakar sem reisa neðanjarðarbyrgi eru nú orðnir þungavigtarmenn innan iðnaðarins og að þeirra mati eru sléttur Miðríkjanna fyrirtaks framkvæmdasvæði. Á tímum kalda stríðsins eyddi Bandaríkjaher milljörðum dollara í framleiðslu kjarnaodda sem síðan voru faldir í neðanjarðarbyrgjum víðsvegar um Bandaríkin. Slík byrgi er m.a. að finna í Kansas, Nebraska, Oklahoma og Nýju Mexíkó. 

Nú þegar búið er að fjarlægja sprengjurnar eru byrgin mörg hver til sölu og geta athafnasamir einstaklingar keypt þau tiltölulega ódýrt og gert íbúðarhæf. New York Times segir engan skort vera á áhugasömum viðskiptavinum.

Ofurkarlmannleg fantasía og eftirlifenda klám

Íbúðirnar 12 í blokk Halls, sem hann nefnir Survival Condo, seljast á frá 1,3 milljónum dollara hver. Þegar hann hóf sölu á slíkum íbúðunum árið 2011 seldust þær allar innan nokkurra mánaða.

Hall, líkt og fleiri í hamfaraiðnaðinum, segist þó ekki bara líta á starf sitt sem viðskipti heldur líka sem köllun. „Ég er að bjarga mannslífum,“ segir hann. „Þetta er nokkuð sem mér líður vel með.“

Þeir eru þó margir sem draga nauðsyn og hagkvæmni slíkra neðanjarðarbyrgja í efa. Einn þeirra er John W. Hoopes mannfræðiprófessor við Kansas háskóla. Hann rannsakaði árum saman þá mýtu að heimsendir yrði árið 2012. Hann sakar heimsendafjárfesta um að ala á „eftirlifendaklámi“, en það kallar hann þá ofurkarlmannlegu fantasíu að hætta sé yfirvofandi og einungis fáeinir útvaldir muni ná að bjarga sér og fjölskyldum sínum, svo framarlega sem þeir eru undir hamfarirnar búnir.

Robert Vicino, verktaki frá Kaliforníu, breytt svæði sem áður var …
Robert Vicino, verktaki frá Kaliforníu, breytt svæði sem áður var í eigu alríkisins í neðanjarðarsetrið Vivos. Ljósmynd/Vivos

„Ótti selur betur en kynlíf,“ segir Hoopes. „Ef maður getur alið á ótta hjá fólki þá er hægt að selja því alls konar dót.“

Svo virðist vera sem fjölmargir Bandaríkjamenn kjósi þessi misserin að fjarlægja sig frá þjóðfélaginu, eða að minnsta kosti að gera sig reiðubúna að flýja ef illa fer.

Neðanjarðarbyrgi með kokk og arinn

Kiki Bandilla,  er 52 ára tryggingasali í Castle Rock í Coloradoríki. Hún segist hafa ákveðið að fjarlægja sig frá þeim sem hún kallar „litlar hænur“ sem telji himininn vera að hrynja. Hún segir aðild sína að birgjasamfélaginu Fortitude Ranch vera sæmilegustu líftryggingu.

„Mér er illa við að reiða mig á nokkuð,“ segir hún. Hvort sem það er alríkisstjórnvöld, stóru matvælaframleiðendurnir eða stóru lyfjafyrirtækin. Minni áhugi er ekki tilkominn af ótta heldur er um frelsisósk að ræða.“

Þúsundir gesta hafa undanfarin ár gert sér ferð á Prepper Camp, þriggja daga hamfara vörusýningu í Norður-Karólínu. Fyrirtæki sem framleiða tilbúin byrgi, sem einungis þarf að setja saman, senda nú slík skýli heim að dyrum og fasteignasalar sem sinna hinum efnameiri leita þessi misserin uppi felustaði fyrir efnamenn innan tæknigeirans og olíuiðnaðarins. Þannig lét Girard Henderson, framkvæmdastjóri Avon snyrtivörufyrirtækisins, til að mynda útbúa fyrir sig neðanjarðarbyrgi í Las Vegas með eldhúsi fyrir kokk og arin. Það er nú er til sölu fyrir litlar 18 milljónir dollara. 

Í Kansas hafa hjón nokkur verið að selja gömul eldflaugabyrgi í gegnum fyrirtækið 20th Century Castles og í Colorado er nú gömul vopnageymsla sem er með tæplega kílómetra löng neðanjarðargöng auglýst til sölu á fasteignavef fyrir 4,2 milljónir dollara.

Eldhús einnar íbúðarinnar í Survival Condo neðanjarðarbyrgi Halls.
Eldhús einnar íbúðarinnar í Survival Condo neðanjarðarbyrgi Halls. Ljósmynd/Survival Condo

Fjögurra stjörnu neðanjarðarhótel

Í Indiana hefur Robert Vicino, verktaki frá Kaliforníu, breytt svæði sem áður var í eigu alríkisins í neðanjarðarsetrið Vivos sem hann segir minna mest á þægilegt fjögurra stjörnu hótel.

Vicino hefur einnig fjárfest í 575 neðanjarðar vopnageymslum í Suður-Dakóta sem hann er nú að skipta upp í smærri hluta til að útbúa það sem hann kallar „stærsta samfélag eftirlifenda á jörðunni“.

Þeir sem fjárfesta í byrgjunum segja hugmyndafræðina ekki vera það sem sameinar þá, því þarna búi íhaldsmenn og frjálslyndir hlið við hlið. Það sem sameini þá sé tilfinningin að þau öfl sem eru að verki í heiminum í dag hafi gert samfélög manna mun viðkvæmari fyrir umfangsmiklum hamförum.

Tom S., er 69 ára tölvunarfræðingur sem býr í útjaðri Atlanta. Hann keypti eitt af byrgjunum sem Vivos selur þar sem pólitískur órói vakti honum sífellt meiri áhyggjur. Byrgið hans er um 200 m2 að stærð og er að hans sögn frábær staður til að skoða Klettafjöllin, en þau hjónin ætla að nýta byrgið sem heimili þegar hann hættir að vinna. Verði hamfarir fyrir þann tíma ætla þau hins vegar að hlaða bílinn og aka á rúmum sólarhring frá Georgíu til Suður-Dakóta.

Tom vill ekki að eftirnafn sitt sé birt, þar sem hann óttast áreiti á netinu. Hann segir kaupin hins vegar hafa haft þau óvæntu áhrif að koma sér í samband við pólitíska andstæðinga sína. Tom er íhaldsmaður, en nágranninn í næsta byrgi er frjálslyndur og hafa þeir m.a. átt líflegar samræður um Donald Trump Bandaríkjaforseta.

16 tonna hurð 

Hall og Survival Condo íbúðir hans eru meðal þeirra þekktustu í hamfaraiðnaðinum, ekki hvað síst vegna þess hve margbrotin mannvirkin eru, svo ekki sé minnst á hver slyngur markaðsmaður hann er.

Survival Condo byggðin liggur við enda sveitavegar, þar sem kýr bíta gras innan við gaddavír og vopnaður vörður í herklæðnaði stendur vörð. Þeir sem þangað koma fara niður í byrgið í gegnum steinsteypuhvelfingu sem er yfir neðanjarðarbyrgjunum. Hver íbúð er svo útbúin gervigluggum með stafrænum skjám. Nú og svo er það náttúrlega neðanjarðar sundlaugin, hundagerðið, vopnabúrið og matargeymslurnar.

Þeir sem þar kaupa íbúð greiða svo 2.600 dollara viðbótargjald mánaðarlega, en Hall hefur látið koma fyrir fimm loftsíum sem eru tengdar raforkunetinu. Hann hefur líka borað fyrir brunni og komið upp rafölum, vindtúrbínu og batterísgeymslu í því skyni að tryggja varaafl.

Dyrnar að hvelfingunni vega svo lítil 16 tonn og lokast að baki gestum með háværum hvelli.

Inngangurinn að Vivos byrginu.
Inngangurinn að Vivos byrginu. Ljósmynd/Vivos

Árásirnar á Tvíburaturnana vendipunktur 

Áður en Hall snéri sér að neðanjarðarbyrgjunum vann hann að gerð gerð gagnavera fyrir varnarmálaverktaka á borð við Northrop Grumman. Árásirnar á Tvíburaturnana hristu hins vegar vel upp í honum að eigin sögn og snéri hann sér því að vernda fólk. Eftir störfin fyrir varnarmálaiðnaðinn viss hann vel að bandarísk stjórnvöld höfðu verið að selja neðanjarðar vopnageymslur sínar. Árið 2008 keypti hann eina slíka fyrir 300.000 dollara og tilkynnti svo konu sinni Lori, að fjölskyldan væri að flytja frá Flórída til Colorado svo hann gæti komið neðanjarðarbyrgjastarfseminni á legg.

Meðaldræg eldflaugar af gerðinni Atlas F, ásamt kjarnaoddum hundruð sinnum öflugri en kjarnorkusprengjan sem varpað var á Nagasaki var upphaflega geymd í byrginu. Flaugarnar voru smíðaðar á sjöunda áratug síðustu aldar og voru geymdar í byrginu í fimm ár áður en þær voru fjarlægðar og efni úr þeim ýmist notað í smíði skotbúnaðar fyrir geimflaugar eða sent á hugana. Byrgið, líkt og mörg önnur slík, stóð eftir autt þar til það var sett í sölu.

Neðanjarðarbyrgið, sem nú hýsir Survival Condo íbúðirnar, kostaði herinn á sínum tíma milljónir að smíða. Það var fyrst selt almennum borgara árið 1967 fyrir 3.030 dollara og hafði verið í eigu nokkurra einstaklinga áður en Hall keypti það.

Það kostaði hann 20 milljónir að breyta því sem þá var í raun lítið annað en hola í jörðunni í íbúðir, en peninganna aflaði hann með því að selja íbúðirnar fyrirfram. Bankar og fjármálastofnanir hafa til þessa sýnt lítinn áhuga á að fjármagna neðanjarðarbyrgin og fjármögnuðu kaupendur Hall því framkvæmdirnar sjálfir og sendu honum peningana símleiðis.

Vilja þyrlupall og neðanjarðar mosku

Hall keypti nýlega annað neðanjarðarbyrgi í Kansas. Hann segist hafa komið út nokkurn veginn á sléttu með fyrsta byrgið, en segir meiri áhuga nú. Meðal mögulegra kaupenda nú eru fulltrúar sádi-arabíska hersins, sem hafa beðið hann um að útbúa uppdrátt með þyrlupalli og neðanjarðar mosku.

Sádi-arabíska sendiráðið í Bandaríkjunum hefur neitað að tjá sig um málið.

Framkvæmdir vegna nýja byrgisins, sem er þrisvar sinnum stærra en það gamla, taka nú upp mestallan tíma Hall. „Það er svo mikið sem þarf að gera,“ segir hann. „Og heimsendir gæti orðið á hverri stundu.“

mbl.is