„Jihadi Jack“ sviptur ríkisborgararétti

Jack Letts, Jihadi Jack, hefur verið sviptur breskum ríkisborgararétti.
Jack Letts, Jihadi Jack, hefur verið sviptur breskum ríkisborgararétti. Stilla úr fréttaviðtali ITV við Jack Letts fyrr á árinu

Bresk stjórnvöld hafa svipt ungan mann ríkisborgararétti sínum, en maðurinn er einnig með kanadískan ríkisborgararétt. Um er að ræða Jack Letts, sem kallaður hefur verið „Jihadi Jack“ í umfjöllun fjölmiðla, en hann var fyrsti hvíti Bretinn til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Ríki íslams.

Breska blaðið Mail on Sunday greinir frá þessu í dag og einnig því að þessi ákvörðun hafi valdið reiði hjá kanadískum stjórnvöldum, sem telja Letts hafa lítil tengsl við landið þrátt fyrir að vera þar ríkisborgari.

Kanadamenn telja að Bretar séu að varpa vandanum annað, en faðir mannsins er kanadískur og móðirin bresk. Þau hafa búið í Bretlandi allt hans líf. Letts er 24 ára í dag og hefur verið í haldi hersveita Kúrda í Sýrlandi um nokkurt skeið en ítrekað biðlað til breskra stjórnvalda um að þau beiti sér fyrir framsali hans frá Sýrlandi.

Strauk 18 ára gamall til Sýrlands

Letts snerist til íslamstrúar er hann var sextán ára gamall skólapiltur í Oxfordskíri og tveimur árum síðar var hann kominn á vígvöllinn í Sýrlandi. Foreldrar hans voru í júní síðastliðnum dæmd fyrir að senda honum peninga, en með því voru þau sögð hafa verið að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Þeim var þó ekki gerð refsing.

„Ég er ekki saklaus,“ sagði Letts í samtali við ITV News fyrr á árinu. „Ég á skilið að fá refsingu. En ég vil að hún sé viðeigandi.. ekki handahófskennd með frjálsri aðferð einhversstaðar í Sýrlandi.“

Kanadamenn sagðir æfir

Samkvæmt umfjöllun Mail on Sunday í dag var það eitt af síðustu verkum Theresu May í embætti forsætisráðherra að staðfesta ákvörðun innanríkisráðherra síns Sajid Javid um að afturkalla ríkisborgararétt Letts.

Kanadamenn eru sagðir „æfir“ í umfjöllun blaðsins um málið og skórnir gerðir að þetta mál Jack Letts gæti varpað skugga á fund Justins Trudeau og Boris Johnson síðar í mánuðinum, er þeir báðir sækja fund G7 í Frakkland.

„Jihadi Jack“ er ekki fyrsti breski ríkisborgarinn sem hlýtur þá refsingu að missa ríkisborgararétt sinn eftir að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin. Fyrr á árinu var tekin ákvörðun um að svipta Shamimu Begum ríkisborgararétti sínum, en hún strauk til Sýrlands á táningsaldri og giftist þar liðsmanni samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert