Ginsburg með krabbamein í brisi

Ruth Bader Ginsburg er elst frjálslyndari hæstaréttardómara og fylgjast frjálslyndir …
Ruth Bader Ginsburg er elst frjálslyndari hæstaréttardómara og fylgjast frjálslyndir Bandaríkjamenn grannt með heilsu hennar. AFP

Bandaríski hæstaréttardómarinn Ruth Bader Ginsburg hefur verið í meðferð við krabbameini í brisi, að því er BBC hefur eftir talskonu réttarins.

Segir hún í yfirlýsingu að Ginsburg hafi „þolað meðferðina vel“ og að æxlið hafi verið „meðhöndlað endanlega“.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ginsburg, sem er 86 ára, hefur greinst með krabbamein og hefur hún til þessa haft betur í baráttunni. Ginsburg hefur einnig náð heilsu á ný eftir að hafa brákað þrjú rifbein eftir fall á skrifstofu sinni í nóvember á síðasta ári.

Frjálslyndir Bandaríkjamenn fylgjast grannt með heilsu Ginsberg, sem er elst frjálslyndari dómara réttarins.  Hæstaréttardómarar í Bandaríkjunum gegna embættinu til æviloka nema þeir kjósi sjálfir að hætta og hafa stuðningsmenn hennar ítrekað lýst yfir áhyggjum af því að íhaldssamari dómari taki við embættinu í hennar stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert