„Hann mun falla fram af bjargi“

Engan bilbug má finna á Tom Brady sem hefur sitt …
Engan bilbug má finna á Tom Brady sem hefur sitt 20. tímabil í NFL-deildinni í byrjun september. AFP

Tom Brady er af mörgum talinn besti leikstjórnandinn í sögu NFL-deildarinnar. Hann hefur unnið leikinn um Ofurskálina oftar en nokkur annar leikmaður, sex sinnum, og unnið langflesta leiki í deildinni meðal leikstjórnenda, 207 talsins. Ótrúlegast af öllu er að maðurinn heldur áfram að vera í hópi bestu leikmanna deildarinnar, 42 ára að aldri, og segist ætla að leika þar til hann verður 45 ára.

Oft er talað um að leikstjórnendur falli fram af bjargi þegar þeir nálgast eða ná fimmtugsaldri. Þ.e.a.s. þeir eru meðal þeirra bestu en skyndilega, oft vegna meiðsla, tapa mestallri getu sinni og eru með þeim verstu í deildinni.

Af þessari ástæðu rignir oft gagnrýni og dómsdagsspám yfir Brady þegar honum gengur ekki sem skyldi eða lið hans, New England Patriots, sýnir nokkur veikleikamerki.

Síðustu tvö tímabil hafa gárungar vestanhafs velt fyrir sér hvort kappinn sé að verða búinn um leið og smá lægð hefur gert vart við sig hjá Brady. Í bæði skiptin hefur hann leitt lið sitt í leikinn um Ofurskálina og þaggað niður í efasemdaröddunum.

Sumarið 2016 lýsti Max Kellerman hjá ESPN – sem að vísu hefur lífsviðurværi sitt af því að rífast við félaga sinn Stephen A. Smith – því yfir að Brady yrði orðinn að „ónytjungi“ í deildinni innan 18 mánaða. Sagði hann kraftinn í kasthendi Bradys fara þverrandi og aðeins tímaspursmál hvenær hann yrði lélegur leikstjórnandi.

Brady lék sér að orðum Kellerman á instagram núna í sumar; birti mynd af hraðamæli sem mældi hraða eins kasta hans. Mælirinn sýndi yfir 100 kílómetra hraða sem telst ansi gott meðal leikstjórnanda í NFL-deildinni. Með myndinni fylgdi tilvitnun í Kellerman: „Hann mun falla fram af bjargi.“

Ýtarlega umfjöllun um Tom Brady má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »