KFC prófar vegan-kjúkling

KFC mun á morgun prófa vegan-kjúkling á viðskiptavinum sínum í …
KFC mun á morgun prófa vegan-kjúkling á viðskiptavinum sínum í borginni Smyrna í Georgíu-ríki. Ljósmynd/Shutterstock

Á morgun munu viðskiptavinir KFC á einum stað í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum eiga þess kost að fá vegan-kjúkling frá fyrirtækinu Beyond Meat, sem framleiðir ýmsar kjötlíkisafurðir sem eiga það sameiginlegt að innihalda engar dýraafurðir.

Þetta opinberaði KFC í tilkynningu í dag. Viðskiptavinum verður boðið upp á frítt smakk af þeim vörum sem KFC og Beyond Meat hafa þróað í sameiningu, en meðal annars er um að ræða vegan-nagga og beinlausa vegan-vængi. Ef viðbrögðin verða góð mun KFC í Bandaríkjunum mögulega bjóða upp á vegan-kjúkling á öllum sínum stöðum.

Kevin Hochman, forseti KFC í Bandaríkjunum, sagði í yfirlýsingu að hann ætti ekki von á öðru en að viðskiptavinir yrðu „agndofa“ yfir því hve vel vegan-vörurnar muni smakkast, en þær verða í boði í borginni Smyrna í Georgíu á morgun.

KFC er ekki fyrsta skyndibitakeðjan vestanhafs sem prófar sig áfram með kjötlausar staðkvæmdarvörur. Burger King kynnti fyrr á árinu Impossible Whooper-borgarann, sem framleiddur er í samstarfi við Impossible Foods. Hann inniheldur ekki snefil af dýraafurðum, frekar en vegan-kjúklingurinn sem KFC ætlar að prufukeyra á morgun.

mbl.is