Fá að halda börnunum

Mynd frá mótmælunum í Moskvu í lok júlí.
Mynd frá mótmælunum í Moskvu í lok júlí. AFP

Rússneskur dómstóll hefur hafnað kröfu saksóknara í Moskvu um að börn verði tekin af foreldrum sínum vegna þess að þeir tóku þau með sér í mótmælagöngur í borginni.

Þess í stað fengu foreldrar barnanna, þau Dmitry og  Olga Prokazov og Petr og Elena Khomskikh, viðvörun. BBC greinir frá.

Mál fjölskyldnanna tveggja hefur vakið mikla reiði í Rússalandi, en saksóknarar hafa fullyrt að foreldrarnir hafi stefnt lífi barna sinna í hættu með því að taka þau með sér á mótmælin. Fjöldi manns hefur verið handtekinn undanfarnar vikur í tengslum við mótmæli vegna borgarstjórnarkosninga í Moskvu sem fram fara næsta sunnudag og hefur óeirðalögregla verið sökuð um að beita mótmælendur hörku.

Dómstóllinn úrskurðaði í málunum tveimur hvorum í sínu lagi, en úrskurðurinn í báðum tilfellum fól í sér formlega viðvörun til foreldranna. Var þeim sagt að þau gætu enn misst börnin létu þau sjá sig nokkurs staðar í nágrenni við mótmælin.

Lögfræðingar foreldranna sögðu báðar fjölskyldurnar ætla að áfrýja málinu.

Í máli Prokazov-fjölskyldunnar fullyrtu saksóknarar að foreldrarnir hefðu stefnt lífi barnsins, sem hefði verið „hjálp­ar­laust sök­um ald­urs“, í hættu með því að afhenda drenginn þriðja aðila.

„Og þannig, með því að nýta dreng­inn, mis­notuðu for­eldr­arn­ir upp­eld­is­rétt sinn á kostnað hags­muna son­ar síns,“ sagði í yfirlýsingu frá saksóknaraembættinu í síðasta mánuði.

Þá var faðir drengs­ins einungis sagður hafa tíma­bundið dval­ar­leyfi í Moskvu og þar með ekki hafa kosn­inga­rétt í borgarstjórnarkosningunum.

Parið kvaðst í sam­tali við BBC í ágúst hins veg­ar ein­göngu hafa leyft vini að halda á barn­inu.

Mál Khomskikh-fjölskyldunnar fékk ekki sambærilega athygli, en þar fullyrtu saksóknarar að foreldrarnir hefðu stefnt lífi tveggja ungra dætra sinna í hættu með því að vera með þær í nágrenni við „mótmælendur í ofbeldishug“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert