Steinsofandi á 100 kílómetra hraða

Skjáskot úr myndskeiðinu. Bæði ökumaðurinn og farþeginn virðast steinsofandi.
Skjáskot úr myndskeiðinu. Bæði ökumaðurinn og farþeginn virðast steinsofandi.

Í myndbandi sem var birt á Twitter í síðustu viku sést ökumaður Teslu steinsofandi við stýrið á meðan bíllinn keyrir á sjálfstýringu á um 100 kílómetra hraða á þjóðvegi í Bandaríkjunum.

Ökumaðurinn er ekki með hendur á stýri og farþeginn í bílnum virðist einnig vera í djúpum svefni. Myndbandið má sjá neðst í fréttinni. 

Dakota Randall setti myndbandið á Twitter-síðu sína og segir hann í samtali við Telegraph að augljóst sé að ekki sé um hrekk að ræða. Myndbandið er tæpar þrjátíu sekúndur en Randall fylgdist með Teslunni sem er af gerðinni X í tæpa mínútu.

Það er þó ekki alveg ljóst hvort ökumaður og farþegi bílsins hafi raunverulega verið sofandi. Aðrir ökumenn Teslna hafa tekið upp myndbönd af sér þar sem þeir þykjast vera sofandi á meðan þeir notast við sjálfstýringu.

Reyndi að vekja ökumanninn án árangurs

„Þetta var ekki blekking, að minnsta kosti ekki í mínum huga,“ sagði Randall í samtali við Telegraph. „Kannski voru þau að þykjast vera sofandi en ég efast stórlega um það.“

„Ég leit yfir til þeirra og sá að það var einhver sofandi við stýrið. Mér þótti það undarlegt svo ég leit aftur til þeirra og fullvissaði mig um að ökumaðurinn væri steinsofandi. Það leit út fyrir að hann væri með sjálfstýringu á bílnum en bíllinn var á 90 til 100 kílómetra hraða,“ sagði Randall ennfremur.  

Randall gerði tilraun til að vekja ökumanninn með því að flauta á hann en Randall fékk engin viðbrögð. „Ég mun aldrei horfa á Teslur á sama hátt,“ sagði Randall. „Ég mun alltaf athuga hvort ökumaðurinn sé ekki örugglega vakandi.“

Lögreglan í Boston segist meðvituð um myndskeiðið en hún hafði ekki fengið formlegar ábendingar um atvikið.

Tesla af gerðinni X.
Tesla af gerðinni X. AFP

Tesla segir um blekkingu að ræða

Fyrirtækið Tesla sagði við NBC að mörg myndbandanna sem sýndu sofandi fólk við stýri Teslu væru „hættulegir hrekkir eða blekkingar“.

Jafnframt sagði fyrirtækið að sjálfstýringin í bílnum minnti ökumenn á að hafa hugann við aksturinn og að hún heimilaði ekki sjálfstýringu þegar viðvaranir væru hunsaðar.

„Á þjóðvegum fá ökumenn oftast viðvaranir á 30 sekúndna fresti ef hendurnar á þeim eru ekki á stýrinu,“ sagði fyrirtækið.

Sjálfstýring Teslna getur ekki keyrt alveg upp á eigin spýtur og er þátttaka ökumanns nauðsynlegt í akstrinum, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.  

Sama hvort myndbandið er áreiðanlegt eða ekki þá mun það líklega koma af stað umræðum um öryggi sjálfstýringar. Framkvæmdastjóri Teslu, Elon Musk, hefur sagt að algjörlega sjálfkeyrandi bílar muni keyra um vegi heimsins mjög bráðlega, jafnvel á næsta ári.

Elon Musk, framkvæmdastjóri Teslu.
Elon Musk, framkvæmdastjóri Teslu. AFP

Þrjú dauðsföll vegna sjálfstýringar nýverið

Í maí síðastliðnum var greint frá því að Tesla sem keyrði á vöruflutningabíl hefði verið með sjálfstýringu á í alla vega tíu sekúndum fyrir atvikið og ökumaðurinn hafi sleppt höndunum af stýrinu í að minnsta kosti átta sekúndur. Ökumaður Teslunnar lét lífið í atvikinu.

Í mars síðastliðnum keyrði Tesla af gerðinni X á vegarkant á meðan hún var á sjálfstýringu. Í bílnum kviknaði og ökumaðurinn lést.

Í maí 2016 lést annar ökumaður Teslu þegar bíllinn hans keyrði á vöruflutningabíl. Sjálfstýring bílsins hafði verið á í 37 mínútur áður en atvikið átti sér stað og ökumaðurinn hafði einungis haft hendur á stýri í 25 sekúndur.

Þrátt fyrir þessi atvik vill fyrirtækið Tesla meina að þeir sem noti sjálfstýringu séu í raun öruggari í umferðinni en þeir sem nýti sér hana ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert