Ólga vegna ofurlauna í skugga kjaraviðræðna

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair.
Michael O'Leary, forstjóri Ryanair. AFP

Tæpur helmingur hluthafa í lággjaldaflugfélaginu Ryanair greiddi atkvæði gegn nýjum launasamningi Michael O'Leary, forstjóra flugfélagsins. Samkvæmt samningnum geta laun forstjórans numið 88 milljónum punda á fimm ára tímabili.

Talsmaður fyrirtækisins sagði að málið yrði borið undir hluthafa.

O´Leary skrifaði undir nýjan samning við fyrirtækið fyrr á árinu og samkvæmt honum verður hann forstjóri þess til ársins 2024. 

Honum var veittur kaupréttur að tíu milljónum hluta í Ryanair sem verða innleystir eftir fimm ár, að því gefnu að honum takist að tvöfalda hagnað fyrirtækisins.

Fram kemur í yfirlýsingu frá fyrirtækinu að fimm ára samningur O´Leary sýni hluthöfum að félagið sé stöðugt. 

Umræðan um ofurlaun forstjórans koma á heldur óheppilegum tíma. Ryanair á í kjaraviðræðum við flugmenn sem hafa boðað verkfallsaðgerðir verði kröfum þeirra ekki hlýtt. 

Frétt BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina