Trump bað Ástralíu um aðstoð við að skoða Rússarannsóknina

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, með Donald Trump Bandaríkjaforseta, er hann …
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, með Donald Trump Bandaríkjaforseta, er hann kom í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna í síðustu viku. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hringdi í Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu og bað hann um aðstoð við rannsókn sem á að kasta rýrð á niðurstöður Mueller-rannsóknarinnar. New York Times greindi fyrst frá málinu, sem áströlsk stjórnvöld hafa síðar staðfest.

Átti símtalið sér stað skömmu áður en Morrison flaug í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna í síðustu viku. Segir ástralska sjónvarpsstöðin ABC heimildamenn innan Hvíta hússins einnig hafa staðfest þetta.

Að sögn tveggja heimildamanna sem þekkja til símtalsins hringdi Trump í Morrison og bað hann að aðstoða William P. Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, við að finna sannanir sem kalli á endurskoðun skýrslu sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI, vann um meint afskipti rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016 og tengslum þeirra við framboð Trump.

Guardian segir Hvíta húsið hafa takmarkað aðgang að endurriti símtalsins við lítinn hóp nánustu aðstoðarmanna forsetans og er það sama aðferð og beitt var til að leyna símtali Trump við Volodomir Zelenskí Úkraínuforseta í júlí.

í því símtali reyndi Trump að fá Zelenskí til að að taka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, til rann­sókn­ar. Urðu fregnir af þeirra samskiptum þess vald­andi að full­trúa­deild Banda­ríkjaþings ákvað að hefja form­lega rann­sókn á því hvort ákæra skuli for­set­ann til emb­ætt­ismissis vegna brota í starfi. 

Féllst á að aðstoða Trump

Guardian segir áströlsk stjórnvöld hafa staðfest að símtalið hafi átt sér stað og að Morrison hafi fallist á að aðstoða Trump. „Áströlsk stjórnvöld eru alltaf reiðubúin til aðstoðar og samstarfs við tilraunir til að varpa frekara ljósi á mál sem eru til rannsóknar,“ sagði í yfirlýsingu frá áströlsku stjórninni. Morrison hafi staðfest þennan samstarfsvilja einu sinni enn í samtali sínu við Trump.

Segir Guardian að svo virðist sem samræður bandarískra og ástralskra stjórnvalda hafi átt sér stað um nokkurra mánaða skeið. Þegar í maí lýsti Trump því yfir að hann vildi að Ástralía tæki þátt í rannsókn Barr á Rússarannsókn FBI. Kvaðst Trump þá vona að Barr myndi „horfa til Bretlands og ég vona að hann horfi til Ástralíu og ég vona að hann horfi til Úkraínu. Ég vona að hann líti alls staðar af því að þetta er blekking sem var framin á landi okkar.“

Marise Payne, utanríkisráðherra Ástralíu, sagði í kjölfar þeirra yfirlýsinga þarlend stjórnvöld reiðbúin að taka þátt í rannsókn Barr. Áströlsk yfirvöld hefðu ekki enn verið beðin um slíkt, en þau myndu vitanlega verða við slíkri beiðni væri hún lögð fram.

Rússarannsókn FBI hófst upphaflega eftir að Alexander Downer, fyrrverandi utanríkisráðherra Ástralíu, frétti um málið frá George Papadopoulos, starfsmanni framboðs Trump. Downer upplýsti FBI um málið í kjölfarið. Sagði Downer Papadopoulos hafa sagt sér er þeir sátu að drykkju kvöld eitt í maí árið 2016 að rússnesk yfirvöld sætu á skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trumps.

Papadopoulos hefur hins vegar neitað að hafa sagt þetta við Downer og kveðst fagna samstarfi ástralskra stjórnvalda við þau bandarísku.

„Bæ, bæ Downer,“ skrifaði hann á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert