Mjög eldfimt ástand áfram í Kaliforníu

Eldsvoðinn í Saddlerigde er einna verstur og hefur farið yfir …
Eldsvoðinn í Saddlerigde er einna verstur og hefur farið yfir rúmlega 3.000 ekrur. AFP

Hlýtt veður og hvassviðri knýja áfram umfangsmikla skógarelda í suðurhluta Kaliforníu-ríkis í Bandaríkjunum sem hafa orðið til þess að um 100 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Einn maður á fertugsaldri lét lífið vegna hjartaáfalls sem hann fékk er hann reyndi að koma í veg fyrir að heimili sitt brynni til kaldra kola.

„Við áætlum að eldurinn fari yfir um 800 ekrur á klukkustund,“ sagði Ralph Terrazas slökkviliðsstjóri í Los Angeles-borg við fjölmiðla í gærkvöldi.

Um eitt þúsund slökkviliðsmenn berjast nú við skógareldanna og njóta liðsinnis flugvéla og þyrla sem sleppa vatni yfir svæðið. Rauð viðvörun hefur verið gefin út vegna mikillar eldhættu meðal annars vegna sterkra vinda og lágs rakastigs.

Svokallaður Saddlerigde-eldur, sem brennur í San Fernando dalnum í Los Angeles, er einn sá stærsti sem slökkviliðið berst nú við. Í gærkvöldi hafði hann farið yfir rúmlega 3.000 hektara svæði. Slökkviliðið segir að íbúar hafi tekið fyrirmælum um brottflutning alvarlega og það hafi hjálpað til í baráttunni við eldinn.

„Sú staðreynd að íbúar tóku fyrirmælum um brottflutning alvarlega og fylgdu þeim fyrirmælum skipti sköpum í baráttunni við eldinn því það gerði slökkviliðsmönnum kleyft að fara inn í hverfin og berjast við eldinn,“ sagði aðstoðarslökkviliðsstjórinn Dave Richardson.

Að minnsta kosti 31 bygging hafði orðið Saddlerigde-eldinum að bráð í gærkvöldi.

Þá hefur svokallaður Sandalwood-eldsvoði eyðilagt um 76 heimili í hjólhýsahverfi austur af Los Angeles. Ein kona á níðræðisaldri lést í þeim eldsvoða.

Þyrlur og flugvélar sleppa vatni yfir svæði sem erfitt er …
Þyrlur og flugvélar sleppa vatni yfir svæði sem erfitt er að ná til með bifreiðum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert