Öflugur fellibylur stefnir á Tókíó og nágrenni

Mikil eyðilegging hefur þegar orðið í Chiba, austan við Tókíó. …
Mikil eyðilegging hefur þegar orðið í Chiba, austan við Tókíó. Þar lést einn maður er lítill flutningabíll sem hann var í fauk á hliðina. AFP

Japanar búa sig nú undir að fellibylurinn Hagibis gangi á land og hafa yfirvöld lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi vegna veðurofsans. Talið er að fellibylnum gætu fylgt mestu rigningar og sá hvassasti vindur sem mælst hefur í Japan í 60 ár og er viðbúið að fellibylurinn hafi mikil áhrif á afar þéttbýlum svæðum í grennd við höfuðborgina Tókíó.

„Spáð er allt að 1000 mm úrkomu í Tókíó. Það er varla að ég trúi svona tölu!“ skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í umfjöllun sinni um fellibylinn á veðurvefnum Blika.is í morgun.

Takeshita-gata í Tókíó er tómleg í dag. Efri myndin af …
Takeshita-gata í Tókíó er tómleg í dag. Efri myndin af þessari vel þekktu verslunargötu í borginni var tekin á föstudagskvöld en sú síðari í dag. AFP

Búist er við því að vindhviður gætu náð allt að 60 metrum á sekúndu er fellibylurinn gengur á land á Honshu-eyju í dag, samkvæmt japönsku veðurstofunni JMA og hefur BBC eftir sérfræðingi þaðan að Hagibis gæti orðið öflugasti stormur sem landið tekst á við frá því að fellibylurinn Kanogawa skildi eftir sig slóð eyðileggingar árið 1958 og varð til þess að 1.200 manns týndu lífinu.

Einn maður hefur þegar látist vegna veðurofsans, en hann var ökumaður lítil sendiferðabíls sem fauk á hliðina í borginni Chiba, austur af Tókíó.

Samkvæmt frétt AFP hefur 3,25 milljónum manna þegar verið ráðlagt að yfirgefa heimili sín og eru yfir 13.500 manns í neyðarskýlum, þar á meðal fólk sem býr í húsum sem skemmdust er annars öflugur stormur fór yfir Japan í síðasta mánuði.

Tómar hillur eru víða í verslunum í Tókíó.
Tómar hillur eru víða í verslunum í Tókíó. AFP

Viðburðum frestað og samgöngur raskast

Fellibylurinn hefur þegar haft áhrif á bæði Formúlu 1-keppnina í Suzuka og heimsmeistaramótið í rugby, sem haldið í Japan þessa dagana. Einnig er veðurofsinn byrjaður að hafa áhrif á samgöngur og daglegt líf, en verslunum, verksmiðjum, hraðlestarleiðum og flugvöllum hefur þegar verið lokað vegna fellibylsins.

Íslendingum bent á að fylgjast með fréttum

Utanríkisráðuneyti Íslands sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem varað var við aftakaveðri á Honshu-eyju. Íslenskum ríkisborgurum á svæðinu er bent á að fylgjast með fréttum og upplýsingaveitum japanskra stjórnvalda varðandi viðbúnað og neyðarviðbrögð.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert