Erdogan henti bréfi Trump í ruslið

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Erdogan Tyrklandsforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Erdogan Tyrklandsforseti. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti henti bréfi frá Donald Trump Bandaríkjaforseta „í ruslatunnuna“. 

Bréfið er dagsett 9. október og sent í kjölfar þess að Bandaríkjaforseti fyrirskipaði að bandarískar hersveitir yrðu fluttar frá norðanverðu Sýrlandi. 

„Ekki vera harðjaxl. Ekki vera bjáni!“ sagði Trump í bréfinu til kollega síns. 

Eftir því sem fram kemur á BBC var Tyrklandsforseti ekki alls kostar sáttur við bréf Trump. Heimildir BBC segja að „Erdogan forseti tók við bréfinu, vísaði því rækilega á bug og henti því í ruslatunnina.“ 

Tyrkir hófu lofthernað og sprengjuárásir á yfirráðasvæði Kúrda sama dag og Erdogan fékk bréf Trump, en orðalag bréfsins var afar einkennilegt. 

„Ger­um góðan samn­ing! Þú vilt ekki bera ábyrgð á slátrun mörg þúsund manns, og ég vil ekki bera ábyrgð á að eyðileggja tyrk­nesk­an efna­hag — og ég mun gera það,“ hót­aði Trump í bréfinu. 

Bréf Trump til Erdogan Tyrklandsforseta.
Bréf Trump til Erdogan Tyrklandsforseta. AFP

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir brotthvarf Bandaríkjahers frá norðanverðu Sýrlandi og þá einkum á meðal hans eigin flokksmanna í Repúblíkanaflokknum. 

129 þingmenn repúblíkana í fulltrúardeildinni fylktu liðið með þingflokki demókrata og fordæmdu ákvörðun forsetans opinberlega í gær. Þverpólitísk samstaða á Bandaríkjaþingi er fátíð nú á dögum, en ályktun þingsins var samþykkt með 354 atkvæðum gegn 60. 

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúardeildinni, átti afar ákafan fund með forsetanum um málefni Sýrlands í gær sem endaði með því að hún og leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, Charles Schumer, gengu út af fundinum. 

Leiðtogar repúblíkana sögðu hegðun Pelosi hafa verið „ósæmandi“ og gagnrýndu hana fyrir að „æða út“.

Pelosi og Trump sökuðu hvort annað um „bræðiskast“ á fundinum og forsetinn tísti mynd af uppákomunni. 

Demókratar hafa sagt myndina af Pelosi vera „goðsagnakennda“ og sýna Pelosi á hennar „besta augnabliki“. Þá setti Pelosi myndina sjálf á Twitter-síðu sína. 

Chuck Schumer og Nancy Pelosi, leiðtogar demókrata, ræða við fjölmiðla …
Chuck Schumer og Nancy Pelosi, leiðtogar demókrata, ræða við fjölmiðla í kjölfar fundarins í gær. AFP

Í aðdraganda fundarins í gær sagði Trump við fjölmiðla að Bandaríkin ættu ekki að skipta sér af hernaðaraðgerðum Tyrkja í Sýrlandi vegna þess að þetta væru „ekki okkar landamæri“ og sagði hann Kúrda ekki „vera neina engla“. Kúrdar hafa verið gríðarlega mikilvægir bandamenn Bandaríkjanna í baráttunni við Ríki íslams í Sýrlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina