„Græn bylgja“ í Sviss

Regula Rytz, formaður Græningja, flytur ávarp fyrir stuðningsmenn eftir að …
Regula Rytz, formaður Græningja, flytur ávarp fyrir stuðningsmenn eftir að fyrstu tölur voru birtar í kvöld. AFP

Svissneski þjóðarflokkurinn (SVP) er áfram stærsti flokkur Sviss eftir þingkosningar þar í landi í dag. Sigurvegarar kosninganna voru hins vegar Græningjar sem bættu við sig sex prósentustigum og eru þar með orðnir fjórði stærsti flokkur landsins.

SVP, sem hefur m.a. barist gegn Evrópusambandinu og fjölgun innflytjenda, fékk 25,6% atkvæða, en var með 29,5% fyrir fjórum árum. Skilar það flokknum 53 sætum eftir að hafa verið með 65 sæti eftir síðustu kosningar. Samtals eru 200 sæti á svissneska þinginu.

Miðhægriflokkurinn Frjálslyndi flokkurinn (FDP) og Sósíalistaflokkurinn (SP) fengu báðir 28 sæti, en SP var þó með 16,8% fylgi meðan FDP fékk 15,1%. Dróst fylgi beggja flokka saman og misstu þeir fjögur sæti hvor.

Formenn stærstu flokkanna í sjónvarpssal.
Formenn stærstu flokkanna í sjónvarpssal. AFP

Græningjar eru sem fyrr segir orðnir fjórði stærsti flokkurinn og fengu 13,2% atkvæða. Bætti flokkurinn við sig 17 sætum og er nú með 28 sæti á þinginu.

Reglua Rytz, formaður Græningja, sagði eftir að úrslitin voru ljós að um risastóra færslu á fylgi væri að ræða, en úrslitin staðfestu kosningaspár þar sem talað hafði verið um „græna bylgju“ í kjölfar meiri áhyggja fólks um loftslagsvána.

Frjálslyndir græningjar, hægrisinnaður grænn flokkur, bættu einnig við sig frá síðustu kosningum og fékk 7,8% fylgi, samanborið við 4,6% í síðustu kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert