Fangi 6318

Það sem eftir er af Ravensbrück-útrýmingarbúðunum norðan Berlínar. Á innfelldu …
Það sem eftir er af Ravensbrück-útrýmingarbúðunum norðan Berlínar. Á innfelldu myndinni er Emma Sunniva Augusta Jacobine Karlsen hjúkrunarkona, ein hundrað norskra kvenna sem sendar voru í búðirnar. Hún átti þaðan ekki afturkvæmt. Ljósmynd/Store norske leksikon og bókin Våre falne

Enginn mun úr því sem komið er nokkru sinni vita hvað það var sem Emma Sunniva Augusta Jacobine Karlsen, 55 ára gömul kaþólsk hjúkrunarkona í Haugesund í Noregi, sagði, sem varð til þess að þýskir hermenn handtóku hana vorið 1942 fyrir að „tala af óvarkárni“. Karlsen var til að byrja með færð í Grini-fangabúðir nasista í Bærum, rétt utan við Ósló, en síðar send þaðan til Ravensbrück-útrýmingarbúðanna um 90 kílómetra norður af Berlín þar sem konur voru vistaðar og talið er að 50.000 konur hafi látist í síðari heimsstyrjöldinni, sumar í kjölfar læknisfræðilegra tilrauna.

Norskir sagnfræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hvernig á því stóð að hjúkrunarkona á sextugsaldri, sem í engu var hægt að tengja við andspyrnuhreyfingu Norðmanna, var send frá Noregi undir auðkenninu „Fangi 6318“ í útrýmingarbúðir í Þýskalandi þar sem hún var síðar, 13. janúar 1944, tekin af lífi með banvænni sprautu og nakið lík hennar fært í eitt af þremur „dauðaherbergjum“ búðanna.

„Enginn þekkir til máls hennar,“ er fært inn á norsku …
„Enginn þekkir til máls hennar,“ er fært inn á norsku aftan við nafn „Fanga 6318“, Emmu Karlsen, skráð Carlsen með C í registur Grini-fangabúðanna í Bærum við Ósló. Ljósmynd/Norska þjóðskjalasafnið

Tvær norskar konur úr röðum andspyrnuhreyfingarinnar, Sylvia Salvesen og Lise Børsum, sátu samtímis Karlsen í Ravensbrück og lifðu dvölina af en alls voru rúmlega 100 norskar konur sendar þangað. Salvesen gaf árið 1947 út bókina Tilgi – men glem ikke (Fyrirgefum – en gleymum ekki) og sagði þar frá örlögum Karlsen sem sett var til starfa á hinu alræmda sjúkrahúsi búðanna, Revier, þar sem hún veiktist að lokum og varð óvinnufær sem varð dauðadómur hjúkrunarkonunnar sem fædd var í Kvernes í Mæri og Raumsdal 13. júlí 1886.

Þótti tímabært að nefna götu eftir kvenkyns stríðshetju

Nú er svo komið að ný gata sem liggur að hverfinu Skåredalen í Haugesund verður nefnd Emma Karlsens gate en nöfn fallinna karlkyns andspyrnuhetja úr seinna stríði einkenna það hverfi og má þar meðal annarra nefna Lars Skjold, Martin Linge, Ragnvald Westbøe og Sverre K. Andersen.

Það var Helga Hermansen, ritari gatnanafnanefndar Haugesund, sem tók af skarið og fannst tímabært að gata í bænum fengi nafn eftir kvenkyns stríðshetju. Hún gekk því á fund Mads Ramstad, forstöðumanns Minjasafns Haugesund, og lagði málið fyrir hann.

„Það gengur ekki að við séum bara að heiðra strákana,“ segir Ramstad við norska ríkisútvarpið NRK í dag. Hann lagðist í grúsk og fann nöfn tveggja kvenna frá Haugesund sem sendar voru í Grini-búðirnar í Bærum. Önnur þeirra reyndist hafa verið send áfram þaðan til Ravensbrück, þar var komin Emma Karlsen.

Ástæða handtökunnar ráðgáta

„Það er nú þannig með okkur sagnfræðingana að því minna sem við vitum þeim mun áhugasamari verðum við,“ segir Ramstad og bendir á bókina Våre falne (Okkar föllnu) sem norska ríkið gaf út eftir síðari heimsstyrjöldina og sagði af föllnum hermönnum og andspyrnumönnum og öðrum Norðmönnum sem féllu í valinn á árunum eftir að þýskir hermenn réðust inn í og hertóku Noreg 9. apríl 1940, en þar er Karlsen getið.

Konur við þrælkunarvinnu í Ravensbrück-útrýmingarbúðunum í Þýskalandi árið 1939. Þar …
Konur við þrælkunarvinnu í Ravensbrück-útrýmingarbúðunum í Þýskalandi árið 1939. Þar mætti Emma Karlsen örlögum sínum 13. janúar 1944. Ljósmynd/Þýska þjóðskjalasafnið

„Fjölskyldan var kaþólsk og Emma starfaði líklegast við St. Franciskus-sjúkrahúsið í Haugesund þar sem hún var handtekin vorið 1942.“ Ramstad viðurkennir að ástæða handtökunnar sé hrein ráðgáta, hún hafi aldrei komið fram utan þess að óvarlegt tal var nefnt. „Þar sem hún var menntuð í Belgíu og Þýskalandi hefur hún vafalaust hvort tveggja skilið og talað þýsku sem hefur örugglega haft eitthvað að segja í þessu máli,“ útskýrir safnstjórinn. „Því miður höfum við ekki fundið neinar heimildir um hvað það nákvæmlega var sem hún sagði og varð til þess að hún var send til Grini og þaðan áfram í búðir í Þýskalandi.“

„Hún upplifði hryllinginn í Ravensbrück“

Sagnfræðingurinn Mari Jonassen vinnur um þessar mundir að riti sínu um konur í stríði. Hún fagnar tilkomu nýja götunafnsins og segir styrjaldasögu kvenna ekki hafa verið gert hátt undir höfði. Hún er engu nær en Ramstad um hver hin örlagaríku orð Karlsen voru. „Vel má vera að hún hafi sagt eitthvað alvarlegt [n. graverende] og gengið í dauðann vegna einhvers máls. Almennt finnst mér að við ættum að nefna fleiri götur eftir konum,“ segir Jonassen.

Sylvia Salvesen andspyrnuhreyfingarkona sat samtímis Emmu Karlsen í þýsku útrýmingarbúðunum. …
Sylvia Salvesen andspyrnuhreyfingarkona sat samtímis Emmu Karlsen í þýsku útrýmingarbúðunum. Eftir stríðið skrifaði hún bókina „Tilgi – men glem ikke“ (Fyrirgefum – en gleymum ekki) sem kom út 1947 og sagði þar frá dvöl sinni í búðunum og aftöku Karlsen. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið í Ósló

„Hún fórnaði miklu og upplifði hryllinginn í Ravensbrück, það var harðneskjulegur dvalarstaður, vinnuþrælkun og læknisfræðilegar tilraunir,“ segir hún enn fremur og bætir því við að langflestar þeirra hundrað norsku kvenna sem sendar voru í Ravensbrück-búðirnar hafi tengst andspyrnuhreyfingunni með einhverjum hætti, það hafi þó ekki verið algilt. „Frá 1942 voru stórir hópar sendir þangað, stundum var ástæðan bara að Grini-búðirnar voru fullar,“ segir Jonassen að lokum.

Líklega verður það aldrei grafið upp hvað Emma Sunniva Augusta Jacobine Karlsen sagði við nasistana í Haugesund vorið 1942 en Ramstad safnstjóri vonar þó að hafa megi uppi á einhverjum ættingjum hennar, vitað sé að faðir hennar, kopar- og blikksmiðurinn Magnus Karlsen, starfaði víða í nyrðri byggðum Noregs og varð tólf barna auðið. Öðlist safnið meiri vitneskju um hjúkrunarkonuna, sem af einhverjum ástæðum var send í þýskar útrýmingarbúðir og lét þar líf sitt, gæti það orðið grundvöllur sérstakrar sýningar í minningu hennar útskýrir Ramstad vongóður.

NRK (2017) (gerð kvikmyndar um andspyrnuhetjuna Evu Kløvstad)

ABC Nyheter (2016) (átta andspyrnukonur)

VG (2011) (gleymdar konur úr andspyrnuhreyfingunni)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert