Feðgin handtekin fyrir kynferðisofbeldi

Lögregla í Palmdale. Herlögregla fann konuna ráðvillta nærri Edwards flugherstöðinni …
Lögregla í Palmdale. Herlögregla fann konuna ráðvillta nærri Edwards flugherstöðinni á miðvikudag. AFP

Feðgin frá bandarísku borginni Palmdale í Kaliforníu voru handtekin í vikunni grunuð um að hafa rænt konu í Las Vegas, haldið henni í heila viku, beitt hana kynferðislegu ofbeldi og skilið hana eftir til að deyja. 

Faðirinn heitir Stanley Alfred Lawton og dóttirin Shaniya Nicole Poche-Lawton en þau eru bæði ákærð fyrir mannrán, tilraun til manndráps og nauðgun, samkvæmt saksóknara í Los Angeles.

Los Angeles Times greinir frá þessu. 

Konan þekkti feðginin

Herlögregla fann konuna ráðvillta nærri Edwards flugherstöðinni á miðvikudag. Konan var í kjölfarið færð á spítala en henni var kalt og hún þjáðist. Konan hefur nú verið útskrifuð af spítalanum.

Konan er á fimmtugsaldri og er talið að henni hafi verið rænt 30. október síðastliðinn og henni haldið í heila viku á heimili Stanley Alfred Lawton í Palmadale.

Stanley Alfred Lawton, sem er 54 ára gamall, var handtekinn á miðvikudag og dóttir hans, sem er 22 ára gömul, var handtekin morguninn eftir. Samkvæmt yfirvöldum þekkir þolandinn gerendurna en ekkert bendir til þess að um einhvers konar hefndarglæp hafi verið að ræða. Sömuleiðis veit lögregla ekki til þess að mannræningjarnir hafi krafist lausnargjalds. Óljóst er hvers vegna feðginin slepptu konunni. Þau verða dregin fyrir dóm á fimmtudag. 

mbl.is