Fyrrverandi dómsmálaráðherra ákærður fyrir spillingu

Michel Mercier, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hefur verið ákærður fyrir misnotkun á …
Michel Mercier, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hefur verið ákærður fyrir misnotkun á almannafé. AFP

Michel Mercier, fyrrverandi dómsmálaráherra Frakklands, hefur verið ákærður fyrir aðild að misnotkun með almannafé. Er flokkur Mercier, MoDem-flokkurinn, sakaður um að veita flokksfélögum störf í Evrópuþinginu sem ekki hafi verið til í raun og veru.

Mercier var gjaldkeri MoDem, sem tengist Lýðveldishreyfingunni, flokki Emmanuel Macron Frakklandsforseta, og var honum birt ákæra á miðvikudag. 

Mercier er annar hátt setti einstaklingurinn í MoDem sem er ákærður fyrir misnotkun á fjármunum Evrópuþingsins, en féð var eyrnamerkt sem laun fyrir aðstoðarmenn þingmanna. Féð var þess í stað notað til að greiða fyrir vinnu fyrir flokkinn heima í Frakklandi.

Í síðustu viku var fjármálastjóri flokksins, Alexandre Nardella, ákærður fyrir sinn þátt í málinu.

MoDem er þó ekki eini franski stjórnmálaflokkurinn sem hefur verið sakaður um misnotkun á fjármunum Evrópusambandsins, því bæði Þjóðfylking Marine Le Pen og hægri öfgaflokkurinn La France Insoumise hafa verið sakaðir um að nýta fjármuni ESB til að greiða fyrir starf flokksins heima.

Allir flokkarnir neita hins vegar ásökununum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert