Greta Thunberg komin til meginlandsins

Greta Thunberg við upphaf ferðarinnar.
Greta Thunberg við upphaf ferðarinnar. AFP

Greta Thunberg er rétt ókomin til hafnar í Lissabon í Portúgal eftir þriggja vikna siglingu yfir Atlantshafið. Þaðan liggur leið hennar svo til Madrídar til að taka þátt í Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25.

Af umhverfisástæðum notast Greta ekki við flugsamgöngur, en hún sigldi frá meginlandi Evrópu til Norður-Ameríku í september til þess að ávarpa loftslagsfund í höfuðstöðvum SÞ í New York.

Til stóð að hún myndi verja tíma sínum vestan Atlantshafsins þar til COP25 hæfist í höfuðborg Síle, Santíagó, nú í byrjun desember. Vegna viðvarandi mótmæla í borginni sáu stjórnvöld í Síle sig hins vegar knúin til þess að hætta við að halda ráðstefnuna og buðust Spánverjar þess í stað til þess að bjóða gestum til Madrídar.

Þá voru góð ráð dýr fyrir Gretu og þurfti hún að finna sér far aftur yfir Atlantshafið.

COP25 hófst í gær og stendur til 13. desember og lítur því allt út fyrir að Gretu takist ætlunarverkið, þó það verði nokkrum dögum of seint.

mbl.is