Bretar flimta Óslóartréð

Þú vínviður hreini. Norðmenn hafa gefið nágrönnum sínum Bretum grenitré …
Þú vínviður hreini. Norðmenn hafa gefið nágrönnum sínum Bretum grenitré fyrir jólin ár hvert síðan 1947 sem þakklætisvott fyrir liðsaukann gegn nasistum í síðari heimsstyrjöldinni og hafa ljós verið tendruð á því í desember eins og Óslóartrénu á Austurvelli sem Íslendingar þekkja vel. Nú telja hins vegar sumir Twitter-notendur að tréð sé orðið vegan. Ljósmynd/Twitter

Svo bregðast jólatré sem önnur tré. Bretar hlæja sig nú máttlausa yfir árlegri jólagjöf Norðmanna allar götur frá 1947 og þakkarvotti fyrir ómetanlegan stuðning í síðari heimsstyrjöldinni, 21 metra háu grenitré sem höggvið var við Trollvann í Ósló 19. nóvember og flutt með viðhöfn til nágrannanna handan hafsins.

Þykir tré ársins sem hafrekið sprek á annarlegri strönd, eins og segir í kvæðinu, gisið og hálfniðurlútt þrátt fyrir hæðina þótt minna beri á pervisnum vextinum þegar öll ljós eru tendruð eftir myrkur. Bretar hafa farið mikinn í kerskni sinni á samfélagsmiðlum í dag og eru athugasemdirnar ófáar. Matt nokkur Hodges spyr til dæmis á Twitter hvort Trafalgar-tréð 2019 sé hugsanlega vegan og annar spyr hvað Bretar hafi eiginlega gert Norðmönnum upp á síðkastið.

Hélt við hefðum skilið tröllin eftir í Noregi

„Þetta er skammarlegt,“ sagði Ralp Allen sem norska ríkisútvarpið NRK ræddi við á vettvangi í dag. „Allar götur síðan ég var pjakkur hef ég komið hingað og skoðað tréð og ávallt hefur það verið íburðarmikið. Þar til núna síðustu ár, þá hefur það rýrnað æ meira og er að lokum orðið að þessu aumkunarverða spreki,“ sagði Allen en var þó stutt í glensið. „Það er bara eins og ég,“ sagði hann að lokum um leið og hann reif ofan kaskeitið og sýndi NRK sköllóttan hvirfil sinn.

Annar vegfarandi sagði að tréð væri dálítið sorglegt en Twitter-notendur tóku þó upp hanskann fyrir grenið og kölluðu gagnrýnendur þess tröll (e. trolls). Svaraði þá ritari Twitter-svæðis trésins sjálfs, @trafalgartree, að bragði og sagði „Ég hélt við hefðum skilið þau eftir í Noregi.“

Marianne Borgen, borgarstjóri Óslóar, var stödd á Trafalgar-torgi í tengslum við afhendingu trésins og sagði við NRK að um væri að ræða kærleikstré frá Norðmönnum til bresku þjóðarinnar. „Sumum finnst það fínt, öðrum ekki, við látum okkur það í léttu rúmi liggja,“ sagði Borgen og brosti sínu blíðasta.

Sjónvarpsfréttir NRK í kvöld (fréttin af trénu á um það bil 18:00)

VG (tréð með fullri lýsingu)

BBC (umfjöllun í gær)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert