Heimsækir Auschwitz í fyrsta skipti

AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, heimsækir í dag í fyrsta skipti Auschwitz, útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Á sama tíma glíma Þjóðverjar við aukið gyðingahatur og uppgang öfgasinna.  

Merkel verður þriðji kanslarinn frá stríðslokum sem heimsækir fangabúðirnar í Póllandi. Ferðin er táknræn en 27. janúar verður þess minnst að 75 ár eru liðin frá því sovéskir hermenn frelsuðu fanga í búðunum.

Að sögn Merkel er það algjört forgangsatriði þýsku ríkisstjórnarinnar að berjast gegn gyðingahatri og hatri af öllu tagi. Hún heitir staðfestu ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi og að allt verði gert til þess að bæta stöðu gyðinga í Þýskalandi. 

AFP
mbl.is